Ekki fara í hundana

Það er mik­il fjöl­breytni í göng­um ­­Ferðafélags Íslands og einn skemmti­leg­asti sprot­inn á mikl­um stofni þess eru hunda­göng­ur sem hafa fengið það fyndna heiti Ekki fara í hund­ana!

„Það er mjög gam­an og gef­andi að fara með hunda í göngu­ferðir," seg­ir far­ar­stjór­inn Auður Kjart­ans­dótt­ir sem stýr­ir þess­um snjöllu göng­um í fé­lagi við Heiðrúnu Meldal frá Ferðafé­lag­inu. Þótt ein­kenn­isorð gönguraðar­inn­ar sé að fara ekki í hund­ana þá hafa þær stallsyst­ur ein­mitt gert það.
Heiðrún á nefni­lega hund­inn Bronco og Auður á Orra en þeir tveir fara báðir á kost­um í göng­un­um og njóta þess að vera í fé­lagi við aðra, bæði hunda og menn. Hunda­göng­urn­ar eru nú að hefjast, þriðja vet­ur­inn í röð, og mæt­ing hef­ur gjarn­an verið afar góð og þátt­taka ókeyp­is. Þannig verður það áfram og eru fjór­ar göng­ur áformaðar fram á vorið.

Það þarf auðvitað að ýmsu að hyggja þegar marg­ir hund­ar koma sam­an. „Það er afar mik­il­vægt að hafa hund­ana í taumi og hafa poka með í för fyr­ir úr­gang,“ seg­ir Auður og þylur upp helstu regl­urn­ar. „Einnig er áríðandi að sýna til­lits­semi við aðra veg­far­end­ur, jafnt við gang­andi, hjólandi og ríðandi hesta­menn og alla aðra. Marg­ir eru hrædd­ir við hunda og það þarf að sýna því skiln­ing. Einnig þarf að huga að öðrum hund­um,“ seg­ir Auður sem er mik­ill nátt­úr­unn­andi og vel þekkt meðal fjöl­margra þeirra sem fara reglu­lega í göng­ur með FÍ. Hún var ein­ung­is 18 ára þegar hún fór í fyrsta sinn sem far­ar­stjóri fyr­ir Ferðafé­lagið. „Ég byrjaði mjög ung að njóta þess að vera úti í nátt­úr­unni. Var bæði alin upp við það og eins fór ég ung í hjálp­ar­sveit­ina,“ seg­ir Auður sem ólst upp á ferðalög­um og miklu flakki á milli þess sem hún lék sér við Þing­valla­vatn sem barn, ým­ist við að klífa kletta, synda í jök­ul­köldu vatn­inu eða rann­saka pödd­ur með stækk­un­ar­gleri.

Nátt­úru­barnið

Það má segja að nátt­úr­an eigi hug og hjarta Auðar, jafnt í vinnu sem frí­stund­um því hún er sér­fræðing­ur í of­an­flóðum hjá Veður­stofu Íslands. Ekki þarf að fara mörg­um orðum um mik­il­vægi þess að huga að vörn­um hvað varðar of­an­flóð á Íslandi en snjóflóð ógna víða bæði lífi og mann­virkj­um. Þegar Auður er úti með hund­ana horf­ir hún á allt þetta já­kvæða sem blas­ir við okk­ur í nátt­úr­unni.
„Það er svo margt sem er gef­andi við að vera úti,“ seg­ir Auður, „nátt­úru­upp­lif­un­in sjálf er ein­stök, þessi teng­ing sem er svo mynd­ræn en líka í formi nátt­úru­hljóða og lykt­ar af gróðri. Svo er það auðvitað þögn­in og kyrrðin. Það sem heill­ar er líka auðvitað hreyf­ing­in og fé­lags­skap­ur­inn, bæði við menn og hunda,“ seg­ir Auður og bros­ir.

Hund­arn­ir njóta göngu­ferðanna

„Hund­arn­ir hafa mjög gam­an af göngu­ferðum en þeir geta stund­um orðið æst­ir í sam­skipt­um við aðra hunda en þeim finnst al­mennt mjög gam­an að þeim fé­lags­skap og þjálfast einnig upp í því að vera með fleiri hund­um í göngu­ferðum. Það er líka mik­il­vægt í at­ferl­is­mót­un hunds­ins.“

Auður seg­ir að oft sé því haldið fram að hund­arn­ir séu bestu vin­ir manns­ins og því sé það eins og að ganga með góðum vini þegar haldið er á vit nátt­úr­unn­ar með hund­in­um sín­um. Sam­band manns og hunds nær gríðarlega langt aft­ur. Elstu minj­ar um nána sam­búð þess­ara teg­unda eru frá Þýskalandi þar sem leif­ar af hundi fund­ust inn­an um mann­vist­ar­leif­ar. Þess­ar minj­ar eru 14 þúsund ára gaml­ar sam­kvæmt kol­efn­is­ald­urs­grein­ingu en þá var ís­öld í Evr­ópu.


Hund­ar út um allt í menn­ing­unni

Hund­ar hafa ít­rekað ratað inn í list­ina um all­an heim og ekki síður hér. Hall­dór Pét­urs­son, einn þekkt­ast teikn­ari okk­ar Íslend­inga, sá oft skop­legu hliðina á sam­bandi manns og hunds í mynd­um sín­um sem prýddu fjöl­marg­ar skáld­sög­ur frá síðustu öld. Fáir hafa teiknað jafn­marg­ar mynd­ir af ís­lenska hund­in­um og Hall­dór.

Þá geta hund­ar orðið fyr­ir­ferðar­mikl­ir í skáld­skapn­um og sum ljóð eru al­ger­lega helguð hund­in­um. „Heyrðu snöggv­ast, Snati minn, snjalli vin­ur kæri, held­urðu ekki hring­inn þinn ég her­mann­lega bæri,“ orti þjóðskáldið Þor­steinn Erl­ings­son. Tík­in hans Bjarts í Sum­ar­hús­um er þó lík­lega fræg­asti fer­fætl­ing­ur ís­lenskra bók­mennta. Tík­in fylg­ir Bjarti í gegn­um sög­una alla, kyn­slóð fram af kyn­slóð í bein­an kven­legg, og læt­ur alla hans þvermóðsku og eft­ir­sókn eft­ir sjálf­stæði yfir sig ganga. Það sem hund­ur­inn leit­ar að finn­ur hann hjá mann­in­um, seg­ir Hall­dór Lax­ness í Sjálf­stæðu fólki, og það sem maður­inn leit­ar að finn­ur hann í aug­um hunds­ins.

Laðast ekki síður að eyr­um en aug­um hunds­ins

„Hund­ar eru mjög góðir að hlusta og maður get­ur talað við þá um allt og létt af hjarta sínu og maður veit að þeir fara ekki með það neitt lengra,“ seg­ir Auður og hlær.

Hún seg­ir að þegar hún fari út með hund­inn sinn hann Orra verði gang­an stund­um lengri en áformað var í upp­hafi og stund­um lengri en hund­ur­inn kær­ir sig um. „Hon­um Orra mín­um finnst oft­ast mjög gam­an og það er vissu­lega hvetj­andi. En Orri er samt nokkuð dynt­ótt­ur og á það til að vilja fara heim, hann er til dæm­is ekk­ert rosa­lega hrif­inn af rign­ingu,“ seg­ir Auður og gýt­ur aug­un­um á Orra sem er aug­ljós­lega til­bú­inn í að tölta um tún og engi, jafn­vel gang­stétt­ir líka.

Hund­ar lyk­ill í þróun manns­ins

Smala­hund­ar til sveita gefa ekki mikið fyr­ir rign­ingu og leggja oft mikið á sig til að þókn­ast hús­bænd­um sín­um. Þeir vinna svo sann­ar­lega fyr­ir fæðunni. Sum­ir vís­inda­menn full­yrða reynd­ar að hund­ar hafi orðið einn af lykl­un­um í þróun manns­ins. Þeir hafi orðið til þess að mönn­um tókst að hafa fasta bú­setu þar sem hund­arn­ir vörðu bú­fénað fyr­ir ágangi villi­dýra, söfnuðu hjörðinni sam­an og stugguðu grasbít­um frá rækt­ar­landi auk þess sem þeir studdu menn við veiðar. Til viðbót­ar þessu gerðu þeir viðvart með gjammi og gelti þegar hætta var aðsteðjandi.

Því er haldið fram að villi­hund­ar hafi upp­haf­lega fylgt mönn­um til að hirða af þeim leif­ar af hræj­um. Smám sam­an hafi þeir nálg­ast mann­inn og á end­an­um fengið sæti við kjöt­katl­ana í skipt­um fyr­ir ýmsa þjón­ustu. Aðrir fræðimenn full­yrða að menn hafi rænt hvolp­um und­an villi­hund­um og alið upp í þeim til­gangi að auðvelda þeim veiðar.

Hvað sem því öllu líður er ljóst að sam­band manns og hunds er með ólík­ind­um náið og ein­stakt og því frá­bært að geta eflt þessi tengsl og notið þeirra í göng­um með Ferðafé­lag­inu þar sem maður er manns gam­an og hund­ur er hunds gam­an.

„Það er best að fara ekki í hund­ana,“ seg­ir Auður og hvet­ur alla sem eiga hunda til að koma með þá í hunda­göngu­ferðir FÍ. „Ekki gleyma góða skap­inu og búa sig eft­ir veðri.“


Eftirtaldar göng­ur eru framund­an í hundaröðinni:

27. mars. Mos­fell. Mæt­ing á bíla­stæði við Mos­fells­kirkju í Mos­fells­dal.
3. apríl. Úlfars­fell. Mæt­ing á bíla­stæði Skóg­rækt­ar­inn­ar við Vest­ur­lands­veg.
10. apríl. Helga­fell í Mos­fells­bæ. Mæt­ing á bíla­stæðið und­ir fjall­inu, Mos­fells­dals­meg­in.
24. apríl. Grafar­holt. Mæt­ing bak við Morg­un­blaðshúsið í Há­deg­is­mó­um.