Það er mikil fjölbreytni í göngum Ferðafélags Íslands og einn skemmtilegasti sprotinn á miklum stofni þess eru hundagöngur sem hafa fengið það fyndna heiti Ekki fara í hundana!
„Það er mjög gaman og gefandi að fara með hunda í gönguferðir," segir fararstjórinn Auður Kjartansdóttir sem stýrir þessum snjöllu göngum í félagi við Heiðrúnu Meldal frá Ferðafélaginu. Þótt einkennisorð gönguraðarinnar sé að fara ekki í hundana þá hafa þær stallsystur einmitt gert það.
Heiðrún á nefnilega hundinn Bronco og Auður á Orra en þeir tveir fara báðir á kostum í göngunum og njóta þess að vera í félagi við aðra, bæði hunda og menn. Hundagöngurnar eru nú að hefjast, þriðja veturinn í röð, og mæting hefur gjarnan verið afar góð og þátttaka ókeypis. Þannig verður það áfram og eru fjórar göngur áformaðar fram á vorið.
Það þarf auðvitað að ýmsu að hyggja þegar margir hundar koma saman. „Það er afar mikilvægt að hafa hundana í taumi og hafa poka með í för fyrir úrgang,“ segir Auður og þylur upp helstu reglurnar. „Einnig er áríðandi að sýna tillitssemi við aðra vegfarendur, jafnt við gangandi, hjólandi og ríðandi hestamenn og alla aðra. Margir eru hræddir við hunda og það þarf að sýna því skilning. Einnig þarf að huga að öðrum hundum,“ segir Auður sem er mikill náttúrunnandi og vel þekkt meðal fjölmargra þeirra sem fara reglulega í göngur með FÍ. Hún var einungis 18 ára þegar hún fór í fyrsta sinn sem fararstjóri fyrir Ferðafélagið. „Ég byrjaði mjög ung að njóta þess að vera úti í náttúrunni. Var bæði alin upp við það og eins fór ég ung í hjálparsveitina,“ segir Auður sem ólst upp á ferðalögum og miklu flakki á milli þess sem hún lék sér við Þingvallavatn sem barn, ýmist við að klífa kletta, synda í jökulköldu vatninu eða rannsaka pöddur með stækkunargleri.
Það má segja að náttúran eigi hug og hjarta Auðar, jafnt í vinnu sem frístundum því hún er sérfræðingur í ofanflóðum hjá Veðurstofu Íslands. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að huga að vörnum hvað varðar ofanflóð á Íslandi en snjóflóð ógna víða bæði lífi og mannvirkjum. Þegar Auður er úti með hundana horfir hún á allt þetta jákvæða sem blasir við okkur í náttúrunni.
„Það er svo margt sem er gefandi við að vera úti,“ segir Auður, „náttúruupplifunin sjálf er einstök, þessi tenging sem er svo myndræn en líka í formi náttúruhljóða og lyktar af gróðri. Svo er það auðvitað þögnin og kyrrðin. Það sem heillar er líka auðvitað hreyfingin og félagsskapurinn, bæði við menn og hunda,“ segir Auður og brosir.
„Hundarnir hafa mjög gaman af gönguferðum en þeir geta stundum orðið æstir í samskiptum við aðra hunda en þeim finnst almennt mjög gaman að þeim félagsskap og þjálfast einnig upp í því að vera með fleiri hundum í gönguferðum. Það er líka mikilvægt í atferlismótun hundsins.“
Auður segir að oft sé því haldið fram að hundarnir séu bestu vinir mannsins og því sé það eins og að ganga með góðum vini þegar haldið er á vit náttúrunnar með hundinum sínum. Samband manns og hunds nær gríðarlega langt aftur. Elstu minjar um nána sambúð þessara tegunda eru frá Þýskalandi þar sem leifar af hundi fundust innan um mannvistarleifar. Þessar minjar eru 14 þúsund ára gamlar samkvæmt kolefnisaldursgreiningu en þá var ísöld í Evrópu.
Hundar hafa ítrekað ratað inn í listina um allan heim og ekki síður hér. Halldór Pétursson, einn þekktast teiknari okkar Íslendinga, sá oft skoplegu hliðina á sambandi manns og hunds í myndum sínum sem prýddu fjölmargar skáldsögur frá síðustu öld. Fáir hafa teiknað jafnmargar myndir af íslenska hundinum og Halldór.
Þá geta hundar orðið fyrirferðarmiklir í skáldskapnum og sum ljóð eru algerlega helguð hundinum. „Heyrðu snöggvast, Snati minn, snjalli vinur kæri, heldurðu ekki hringinn þinn ég hermannlega bæri,“ orti þjóðskáldið Þorsteinn Erlingsson. Tíkin hans Bjarts í Sumarhúsum er þó líklega frægasti ferfætlingur íslenskra bókmennta. Tíkin fylgir Bjarti í gegnum söguna alla, kynslóð fram af kynslóð í beinan kvenlegg, og lætur alla hans þvermóðsku og eftirsókn eftir sjálfstæði yfir sig ganga. Það sem hundurinn leitar að finnur hann hjá manninum, segir Halldór Laxness í Sjálfstæðu fólki, og það sem maðurinn leitar að finnur hann í augum hundsins.
„Hundar eru mjög góðir að hlusta og maður getur talað við þá um allt og létt af hjarta sínu og maður veit að þeir fara ekki með það neitt lengra,“ segir Auður og hlær.
Hún segir að þegar hún fari út með hundinn sinn hann Orra verði gangan stundum lengri en áformað var í upphafi og stundum lengri en hundurinn kærir sig um. „Honum Orra mínum finnst oftast mjög gaman og það er vissulega hvetjandi. En Orri er samt nokkuð dyntóttur og á það til að vilja fara heim, hann er til dæmis ekkert rosalega hrifinn af rigningu,“ segir Auður og gýtur augunum á Orra sem er augljóslega tilbúinn í að tölta um tún og engi, jafnvel gangstéttir líka.
Smalahundar til sveita gefa ekki mikið fyrir rigningu og leggja oft mikið á sig til að þóknast húsbændum sínum. Þeir vinna svo sannarlega fyrir fæðunni. Sumir vísindamenn fullyrða reyndar að hundar hafi orðið einn af lyklunum í þróun mannsins. Þeir hafi orðið til þess að mönnum tókst að hafa fasta búsetu þar sem hundarnir vörðu búfénað fyrir ágangi villidýra, söfnuðu hjörðinni saman og stugguðu grasbítum frá ræktarlandi auk þess sem þeir studdu menn við veiðar. Til viðbótar þessu gerðu þeir viðvart með gjammi og gelti þegar hætta var aðsteðjandi.
Því er haldið fram að villihundar hafi upphaflega fylgt mönnum til að hirða af þeim leifar af hræjum. Smám saman hafi þeir nálgast manninn og á endanum fengið sæti við kjötkatlana í skiptum fyrir ýmsa þjónustu. Aðrir fræðimenn fullyrða að menn hafi rænt hvolpum undan villihundum og alið upp í þeim tilgangi að auðvelda þeim veiðar.
Hvað sem því öllu líður er ljóst að samband manns og hunds er með ólíkindum náið og einstakt og því frábært að geta eflt þessi tengsl og notið þeirra í göngum með Ferðafélaginu þar sem maður er manns gaman og hundur er hunds gaman.
„Það er best að fara ekki í hundana,“ segir Auður og hvetur alla sem eiga hunda til að koma með þá í hundagönguferðir FÍ. „Ekki gleyma góða skapinu og búa sig eftir veðri.“
Eftirtaldar göngur eru framundan í hundaröðinni:
27. mars. Mosfell. Mæting á bílastæði við Mosfellskirkju í Mosfellsdal.
3. apríl. Úlfarsfell. Mæting á bílastæði Skógræktarinnar við Vesturlandsveg.
10. apríl. Helgafell í Mosfellsbæ. Mæting á bílastæðið undir fjallinu, Mosfellsdalsmegin.
24. apríl. Grafarholt. Mæting bak við Morgunblaðshúsið í Hádegismóum.