20. apríl, laugardagur
Fararstjóri: Ragnar Antoniussen.
Brottför: Kl. 7:30 á einkabílum frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6.
Elliðatindar eru 864 metra háir og eru vestast í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Þeir eru mjög sýnilegir víðs vegar að af Snæfellsnesinu og sérstaklega þegar komið er að Vegamótum vegna mikils hamars, Elliðahamars, sem blasir við vegfarendum. Hamarinn er þverhníptur og segja sögur hann vera um 200 metra háan. Hraun eru þarna á báðar hliðar. Elliðahraun vestanmegin en Skollahraun austanmegin. Elliðatindar og Elliðahamar sjást vel frá höfuðborginni á góðum degi.
Útsýni af Elliðatindi er ekki af lakara taginu. Yst á nesinu sést til Snæfellsjökuls og margra annarra flottra fjallstoppa svo sem Gráborgar og Tröllatinda. Í austurátt ber svo mest á fjöllunum í kringum Ljósufjöllin. Að auki má nefna Löngufjörur, Akrafjall og útsýni yfir Breiðafjörðinn. Fjallafólk fær því sérstaka og mjög skemmtilega sýn á Snæfellsnes.
Fjallaferðin hefst við eyðibýlið Elliða og er fyrst gegnið alveg uppað Elliðahamri til að skoða einstakt hringlaga hellisop sem þar er neðarlega í klettunum. Við förum svo skemmtilega leið upp brattar brekkur vinstra megin Elliðahamars alveg þar til við komum uppá hamarinn sjálfan. Önnur og einfaldari leið er upp Hamradalinn meðfram Árgangsklettum en við förum þá leið niður. Ef færi er í lagi þá förum við einnig uppá tindinn rétt ofan hamarsins, þar er skemmtilegt stuðlaberg að sjá. Þaðan er svo farið yfir í Hamradal og svo á Elliðatinda. Á bakaleiðinni er staldrað við efst á hamri Elliðahamars og haldið svo niður Hamradalinn.
Göngulengd er um 11 km og má gera ráð fyrir að fjallaferðin, með slóri og matar-/kaffipásum taki um 6 klst. Við þetta bætist svo tíminn sem fer í akstur, gera má ráð fyrir um 2 klst akstri frá Reykjavík.
“Þjóðsögur herma, að tröllkona hafi í fyrndinni átt heima í helli þessum, og áttu úr honum að vera göng i gegnum fjallið. Var sagt, að þau enduðu í Vatnafelli, milli Baulárvallavatns og Hraunsfjarðarvatns, langtum innar á fjallgarðinum. Þannig átti að vera innangengt fyrir tröllin að hinum fengsælu veiðivötnum. Tröllkonan í hellinum var sögð hafa átt í brösum við, bóndann á Elliða, því að steini miklum átti hún að hafa kastað niður á láglendið, þótt ekki hæfði hún bæinn. Heitir sá steinn Gýgjarsteinn, mikill og fallegur klettur í túninu, skammt þaðan sem bærinn var.” Heimild: timarit.is, Tíminn 18. nóvember 1961.
Verð: 4.000/6.000.