Ferðafélag Íslands hefur afhent Lífi, styrktarfélagi, allan ágóða af FÍ Háfjallakvöldi sem haldið var fyrr í vetur, alls kr. 1.362.000.
Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ og Steingerður Sigtryggsdóttir fjármálastjóri FÍ afhentu Sigrúnu Arnardóttur formanni Lífs styrkinn síðastliðinn þriðjudag 7. desember.
Háfjallakvöld Ferðafélags Íslands og Félags íslenskra fjallalækna var haldið í Háskólabíói 31. október sl. John Snorri Sigurjónsson sagði frá og sýndi myndir frá leiðangri sínum á K2, Lhotse og Broad Peak sl. sumar. Einnig sýndu Ólafur Már Björnsson og Tómas Guðbjartsson myndir úr ferðum sínum sl. sumar um hálendið og óbyggðir landsins. Allur aðgangseyrir af Háfjallakvöldinu rann til Lífs styrktarfélgsins.
Líf styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans hefur þann tilgang að bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Félagið vinnur að líknar- og mannúðarmálum í þágu fjölskyldna.
Að félaginu standa núverandi og fyrrverandi starfsmenn kvennadeildar ásamt breiðum hópi fólks víðsvegar úr þjóðfélaginu. Þó skírskotun sé augljós til kvenna vegna kvennadeildar er lögð áhersla á að félagið sé fyrir karla og konur enda njóta karlar einnig þjónustu kvennadeildar þar sem börn þeirra fæðast.
Sjá nánar um Líf: http://gefdulif.is/um-lif/stjorn/