Ríflega 88% göngumanna sem gengu Laugaveginn síðasta sumar, úr Landmannalaugum í Þórsmörk, töldu að náttúran á leiðinni hefði farið fram úr eða langt fram úr væntingum. Aðeins 1% taldi náttúruna ekki standast væntingar. Þegar göngufólk var spurt hvort fjöldi göngumanna á Laugaveginum hefði verið ásættanlegur sögðu ríflega 78% svo vera, 16% töldu að það væru frekar margir á leiðinni og um 5% að það væru of margir á Laugaveginum.
Í könnun sem Outcome kannanir gerðu fyrir Ferðafélag Íslands svöruðu 78% þannig að gönguferðin hafi farið fram úr eða langt fram úr væntingum. Aðeins 2,5% töldu að gönguferðin hafi ekki staðist væntingar. Spurt var um hvort viðkomandi myndi mæla með Laugavegsgöngu við vini og ættingja og merktu 59% við 10 á skalanum 1-10 og alls merktu 92,5% við 8, 9 eða 10.
Þátttakendur í könnun Ferðafélagsins voru valdir af handahófi úr bókunarkerfi félagsins og gætt að því að dreifing væri yfir sumarmánuðina fjóra. Úrtakið taldi ríflega 500 göngumenn víðs vegar að úr heiminum, en heildarfjöldi fólks sem gekk Laugaveginn í sumar var á þrettánda þúsund og voru útlendingar um 96%. Könnunin var send með tölvupósti á netföng sem gefin voru upp þegar bókað var.
Svarhlutfall könnunarinnar var 36,5% en rétt tæplega 200 svöruðu könnuninni. Fjöldi göngumanna á bakvið þátttakendur í könnuninni var um 400 og mældust gistinætur þessa hóps á Laugaveginum á annað þúsund.
Umræða um ástand og álag á gönguleiðinni á milli Landmannalauga og Þórsmerkur/Skóga hefur verið töluverð, segir í samantekt FÍ. Sú umræða hefur snúist um mikið álag á náttúruna og vandamál tengd aukningu göngufólks á leiðinni.
Ferðafélagið vinnur að stefnumótun og aðgerðaáætlun sem ætlað er að takast á við viðfangsefnið og ná jafnvægi á gönguleiðinni. Sem hluta af þeirri vinnu var ákveðið að gera könnun á meðal erlendra gesta sem gengu leiðina sumarið og haustið 2017 og fá fram þeirra viðhorf til nokkurra mikilvægra þátta.
Göngufólk fékk upplýsingar um Laugaveginn í 47% tilfella á netinu en í 33% frá vinum og kunningjum. Fegurð náttúrunnar réð vali flestra fyrir vali á gönguleiðinni, en einnig skipulag, aðgengi, erfiðleikastig og lengd. Góð ummæli og hvetjandi skrif áttu einnig hlut að máli í vali margra. Samskipti við Ferðafélagið fékk háa einkunn í svörum fólks.
Gestir voru beðnir um að gefa áföngum göngunnar einkunn og voru fyrstu tveir hlutar göngunnar taldir mjög áhugaverðir af yfir 90% göngumanna og yfir 98% töldu þá vera mjög eða nokkuð áhugaverða. Fram kom í svörunum að fyrsti hluti leiðarinnar frá Landmannalaugum í Álftavatn hefði verið einstakur.
Þriðji hluti göngunnar fékk lægri einkunn og þótti gangan í sandinum á leið í Emstrur ekki jafn skemmtileg og aðrir hlutar göngunnar. Eigi að síður töldu um 90% þann hluta vera mjög eða nokkuð áhugaverðan. Innan við helmingur þátttakenda gekk yfir Fimmvörðuháls. Þeir sem gengu þá leið töldu allir að hún væri mjög eða nokkuð áhugaverð.
Þegar spurt var hvort göngumenn myndu gera eitthvað öðru vísi ef þeir færu þessa leið aftur svaraði ríflega helmingur játandi. Allmargir sögðust myndu ganga alla leiðina og fara yfir Fimmvörðuháls og svipaður fjöldi sagðist myndu taka annan eða minni búnað með sér.
Þátttakendur voru beðnir um að skrá þá skála og tjaldsvæði sem þeir nýttu í þessari ferð. Álftavatn var sá skáli sem oftast var gist í en 83% svarenda gistu þar. 71% í Emstrum og 55% í Hrafntinnuskeri. 45% gistu í Landmannalaugum og Þórsmörk. Hluti þessa hóps gisti einhverjar nætur á tjaldsvæðum og oftast var gist á tjaldsvæðinu í Emstrum og svo á tjaldsvæðinu í Hrafntinnuskeri. Skálinn í Álftavatni þótti bestur og Hrafntinnusker sístur.
Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands, segir niðurstöðurnar um jákvæða upplifun og afstöðu ferðamanna til gönguleiðarinnar afskaplega ánægjulegar. Það sé einnig athyglisvert að fjöldinn á gönguleiðinni virðist ekki angra göngumenn.
„Menn verða að hafa í huga hvaða væntingar fólk hefur þegar verið er að tala um mikinn fjölda á tilteknum stöðum. Þeir sem velja að skoða Þingvelli, Gullfoss, Geysi eða Landmannalaugar gera ráð fyrir að þar sé töluvert af fólki og flestir sem fóru um Laugaveginn eru sáttir við fjöldann. Þeir sem vilja vera algerlega út af fyrir sig finna sér aðra staði þar sem fáir eru á ferli og þá má finna víða á landinu.“
Ólafur segir að Ferðafélagið vinni stöðugt að uppbyggingu og endurbótum á Laugaveginum og annars staðar. Meðal annars sé framundan á næstu árum að endurbæta skálakost félagsins og gera þá að myndarlegri fjallaskálum með bættri aðstöðu án þess að um lúxus verði að ræða.
Félagið hefur ráðið tvo gönguverði, nokkurs konar landverði, og er þetta að fyrirmynd bandarískra þjóðgarða. Þeir verða stöðugt á gangi á Laugaveginum og er ætlað að veita öryggi og þjónustu. Þeir hjálpa fólki ef eitthvað amar að, en gæta einnig að umhverfismálum; t.d. að fólk spilli ekki náttúrunni, tjaldi ekki á röngum stöðum eða létti á sér bak við hól, svo dæmi séu tekin. Þá hefur Markús Einarsson verið ráðinn rekstrarstjóri skála FÍ meðal annars til að auka gæðin í starfinu og sinna umhverfismálum skv. umhverfisstefnu félagsins.
Stefnt að því að gera tilraun með einstefnu á Laugaveginum og að aðeins verði gengið úr Laugum í Þórsmörk. Það þarf hins vegar lengri undirbúning og kynningu áður en af verður. Ferðafélagið vinnur m.a. með Umhverfisstofnun að þessum verkefnum.
„Í sumar verður reynt að tryggja að fólk bóki sig fyrirfram í tjaldstæði, sem hefur ekki verið reglan til þessa,“ segir Ólafur.
Nú erum við að undirbúa að þessir stóru skipulögðu hópar leggi ekki allir á af stað á sama tíma og samið verði við ferðaskrifstofu eða fararstjóra um hvenær lagt verður af stað. Ef brottfarir verða með hálftíma eða klukkutímamillibili dreifist álag á salerni og menn ganga ekki alveg í einum hnapp.
Það er óvíða jafn mikil, fjölbreytileg og sérstök náttúrufegurð og á Laugaveginum. Það er því hagur allra að vel verði staðið að málum á þessu einstaka svæði," segir Ólafur
Margir göngugarpanna hrósuðu skálum Ferðafélagsins og umhverfi þeirra, en hamingjan var þó ekki hrópandi hjá öllum göngumönnum eftir dvöl í skálunum. Nokkrum sinnum var kvartað yfir hræðilegri lykt á klósettinu í Hrafntinnuskeri. Hrafntinnusker er í um 1100 metra hæð og sökum aðstæðna er kamar í skálanum en ekki vatnssalererni.
Ólafur Örn segir að Ferðafélagið taki öllum aðfinnslum og ábendingum mjög alvarlega. Í ferðaþjónustu þurfi menn að vera vakandi fyrir gagnrýni, taka henni vinsamlega og nýta hans. Hann segir að unnið sé að því að bæta aðstöðu og aðbúnað og tekið verði tillit til ábendinga. Þetta eigi sérstaklega við um skálann í Hrafntinnuskeri þar sem illmögulegt sé að ná vatni.