Enn einn háfjallasigur FÍ í Öræfunum

Hópur á vegum Ferðafélags Íslands gekk á Hrútfjallstinda (1.875 m.y.s.) undir stjórn Guðmundar Freys Jónssonar um síðustu helgi en aðrir fararstjórar undir hans forystu voru Óðinn Árnason og Ólafur Örn Haraldsson, forseti FÍ.

Þátttakendur voru 21 og var ferðin einstaklega vel heppnuð. Skemmst er frá að segja að allir í hópnum náðu settu marki og komust á Vesturtind og Hátind við bestu aðstæður og fengu óviðjafnanlegt útsýni. Lagt var af stað í gönguna frá Illuklettum við Svínafellsjökul kl. 23 á föstudagskvöld þar sem veðurspá gaf helst vísbendingu um bjartviðri fram eftir morgni laugardagsins. Þetta rættist.

Þegar ferðafélagarnir stóðu á hæsta tindi var skyggni frábært og stafalogn. Útsýni af Hrútfjallstindum er eitt það glæsilegasta á landinu. Skriðjöklar Skaftafells- og Svíafellsjökuls umkringja tindana. Hæstu fjöll í nágrenni Morsárdals eru nærri, Skarðatindur, Þumall, Miðfellstindur, Kristínartindar og fleiri. Til norðurs sér langt inn á Vatnajökul en í austri eru Mávabyggðir, Esjufjöll að ógleymdum sjálfum Hvannadalshnúk og Dyrhamri. Ekki spillti að vel sást til gönguhóps frá Ferðafélagi Íslands á hæsta bletti Hvannadalshnúks sem var þar í sömu veðurblíðu. Gangan á Hrútfjallstinda gekk vel en göngufæri var mjög þungt í blautum snjó en hvergi voru sprungur til trafala.

Þess má geta að fyrsta ferð Ferðafélagsins á Hrútsfjallstinda var farin um Hvítasunnu árið 1987 og tókst mjög vel. Þá fór hópur í fyrsta sinn þá leið sem nú er oftast farin. Það var Jón Viðar Sigurðsson, jarðfræðingur og ritstjóri Árbókar FÍ sem var fararstjóri í þeirri brautryðjendaför og gekk leiðin lengi undir nafninu Ferðafélagsleiðin. Sjá nánar í grein í Morgunblaðinu 12. maí 1988.