Framundan eru nokkrar stórar ferðir á Öræfajökul á vegum Ferðafélagsins. Það er eðlilegt að fólk spyrji eftir fréttir sem hafa verið af jarðhræringum undir jöklinum hvort það sé óhætt að leggja leið sína á þessa ógnarstóru eldstöð um þessar mundir.
Hjalti Björnsson hefur verið fararstjóri um árabil í ferðum FÍ. Eins og margir var hann á háfjallakvöldi FÍ á dögunum, þar sem m.a. var farið yfir stöðuna á jöklinum.
„Það er í raun og veru ekkert að gerast,“ segir Hjalti. „Það hefur komið hiti og jarðvarmi í gosrásina, en það er enginn gosórói til staðar.“
Hjalti segir því ólíklegt að jarðhræringarnar sem hafa orðið í vetur muni hafa áhrif á ferðirnar framundan. Í engar svona ferðir er þó farið án þess að hafa samráð við eldfjallavaktina á Veðurstofu Íslands.
„Maður hringir og fær grænt ljós á ferðina. Svo lætur maður þau hafa númerið sitt. Það er vakt þarna, sem hringir í mann ef eitthvað gerist.“
Farið verður á Hvannadalshnjúk þann 5.maí á fjallaskíðum og á Hrútsfjallstinda einnig þann 5.maí. Þá verður einnig gengið og skíðað á Hvannadalshnjúk í tveimur aðskildum ferðum um hvítasunnuhelgina, þann 19.maí.
Ef aðstæður verða viðsjárverðar á jöklinum verður auðvitað ekki farið. Þá verður væntanlega boðið í staðinn upp á annan áfangastað.
Öræfajökull er auðvitað ekki eina möglega hættusvæðið í fjallamennsku á Íslandi. Annað fjall sem kemur fljótt upp í hugann er Hekla. Hún er alltaf líkleg til að láta að sér kveða. Hjalti hefur farið talsvert á Heklu undanfarin ár. „Þar gildir að sýna aðgát og hafa samráð við eldjallavaktina.“
Hjalti hefur einu sinni orðið vitni að gosi á ferðum sínum. Hann var staddur með hópi af fólki á Öræfajökli þegar gaus í Grímsvötnum árið 2011.
„Við vorum í stúkusæti. En svo kom svo mikið öskufall að við lokuðumst inni í Skaftafelli í nokkra daga.“
Engum varð meint af. Það eru til margir verri staðir til að lokast inni í en Skaftafell.