Esjan endilöng - ferðasaga

44 farþegar fóru með Ferðafélagi Íslands eftir Esjunni endilangri á sunnudaginn 14. júní. Gengið var frá Svínaskarðsá upp á Móskarðshnúka og þaðan um Laufskörð yfir á Esjuna sjálfa og svo eftir henni endilangri með viðkomu á Hábungu sem er hæsti punktur þessa vinsæla fjalls, 914 metrar. Þaðan var svo haldið áfram eftir fjallinu út á Kerhólakamb og niður hann að bænum Esjubergi. Þetta eru um 20 kílómetrar og gekk á með fjölbreyttu veðurfari meðan á ferðinni stóð. Stundum rigndi, stundum skein sólin og slydda og haglél sáust einnig um stund. Göngufæri var einnig misjafnlega erfitt því talsverður snjór er enn uppi á fjallinu og aurbleyta í samræmi við það.

Þátttakendur voru frískir og léttir og fæti og skemmtu sér konunglega í þessari óvenjulegu gönguferð en Esjan býr yfir fjölbreyttu landslagi og afkimar hennar og dalir eru flestir sjaldséðir þótt hin almenna gönguleið njóti vinsælda sem aldrei fyrr. Þess má geta að elsti þátttakandinn var 68 ára gamall.

Fararstjórar voru Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.