Esjudagur FÍ og Valitor er haldinn sunnudaginn 28. ágúst nk. Ferðafélag Íslands býður upp á gönguferðir með fararstjórum í tilefni dagsins. Meðal annars er boðið upp á fjölskyldugöngu með Ferðafélagi barnanna að fyrstu búðum, skógargöngu með skógræktarfélagi Reykjavikur, kappgöngu að Steini, göngu á Þverfellshorn og morgungöngu á Móskarðshnúka með framkvæmdastjóra FÍ.
Mæting í morgungöngu er kl. 6 að morgni við skrifstofu FÍ Mörkinni 6, þar sem sameinast er í bíla og ekið að upphafsstað göngu. Einnig er hægt að mæta beint að upphafsstað göngu og er þá ekið inn Mosfellsdal, beygt til vinstri hjá Hrafnhólum, skömmu eftir að ekið hefur verið framhjá Gljúfrassteini og sá vegur ekinn eins langt og hann liggur að göngubrú þar sem ganga hefst. Gengið er á Móskarðshnúka og yfir í Laufskörð. Áætlaður göngutími er 4 klst. Takið með ykkur nesti og verið vel búinn ( í góðum göngufatnaði, með bakpoka, göngustafi ef þið kjósið svo,) Fararstjóri í morgungöngunni er Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ og upphafsmaður morgungangna FÍ. Þórbergur Þórðarson og Halldór Laxnes verða með í för, ( í bakpokanum )