Esjuhappdrætti FÍ og SPRON hefst í dag

Fréttatilkynning 29. maí 2007

Esjuhappdrættið hefur göngu sína á ný

Ferðafélag Íslands, Sparisjóður Reykjavíkur  og Íslensku alparnir standa fyrir Esjuhappdrætti FÍ og SPRON nú þriðja sumarið í röð. Allir sem skrifa nafn sitt og netfang í gestabók sem geymd er í útsýnisskífu FÍ á Þverfellshorni lenda í potti sem dregið er úr vikulega. Vinningshafi hlýtur veglega gönguskó frá Íslensku ölpunum í verðlaun.

Dregið er í Esjuhappdrættinu á hverjum fimmtudegi og tilkynnt um vinningshafa á heimasíðum SPRON og FÍ, auk þess sem vinningshafanum er sendur tölvupóstur. 

Esjan nýtur sívaxandi vinsælda sem útvistarsvæði og ganga nú um 8 – 10.000 manns á Esjuna á hverju sumri.  Áætlað er að allt að 15000 manns gangi á Esjuna yfir árið í heild.

Ferðafélag Íslands og SPRON

Ferðafélag Íslands og SPRON hafa um árabil unnið saman að uppbyggingarstarfi í Esjuhlíðum. Unnið hefur verið að gerð stíga, merkingum, útgáfu og fræðslu auk þess sem Ferðafélagið hefur staðið fyrir vikulegum göngum á Esjuna undir leiðsögn fararstjóra. Jafnframt hafa SPRON og FÍ staðið saman að hinum árlega Esjudegi.   Esjuklúbbur FÍ og SPRON var stofnaður haustið 2005 eftir að um 8000 manns höfðu tekið þátt í Esjuhappdrætti FÍ og SPRON og skráð nafn sitt í gestabókina sem geymd er í útsýnisskífu á Þverfellshorni.