Fagnaðarópin glumdu út í blámann

,Ég er sannfærður um að margir þeirra sem klifu Hnúkinn að þessu sinni, líta á þennan sæta sigur sem ákveðið upphaf að lífsstíl sem hefur fjallaferðir og fjallgöngur í hávegum. Það er nefnilega á þessum tímamótum sem þetta breytist úr áhugamáli yfir í mikla ástríðu fyrir útivist í allri sinni dýrð," segir Örlygur Steinn Sigurjónsson, yfirfararstjóri í ferð Ferðafélags Íslands á Hvannadalshnúk um síðustu helgi.

109 manns á toppinn

Ferðafélagið hefur í mörg ár boðið upp á göngu á Hvannadalshnúk um Hvítasunnuhelgi og er þetta sjöunda árið sem Örlygur leiðir för. Í ár voru það alls 109 skælbrosandi konur og karlar sem stóðu í bongóblíðu og heiðskíru veðri á hæsta tindi landsins í 2110 metra hæð síðasta laugardagsmorgun.

Örlygur segir að undirbúningur fyrir svona ferð hefjist strax í janúar, febrúar og í mörg horn sé að líta, sérstaklega þegar nær dragi. Í þetta sinn var hópurinn samansettur af þeim sem skráðu sig til leiks beint í Hnúksgönguna en líka var þetta lokaáfangi þátttakanda í Alla leið fjallaverkefni FÍ sem er hópur sem gengið hefur saman á fjöll síðan í janúar undir forystu Hjalta Björnssonar. Fyrir svona stóran hóp þarf mikið utanumhald, enda voru fararstjórar FÍ í ferðinni, alls þrettán talsins.

lagt_af_stad_um_nott.jpg
Lagt af stað um hánótt

108-gongumenn.jpg
Jólasveinar einn og hundrað og átta

Há væntingavísitala

,,Að þessu sinni merkti ég óvenjuháa væntingavísitölu þátttakenda með mikilli tilhlökkun og mjög góð mæting var á undirbúningsfundina tvo sem haldnir voru," segir Örlygur sem segist fyrirfram innilega hafa vonað að veður og aðstæður yrðu góðar.

Þannig er það auðvitað ekki alltaf og í fyrra segist Örlygur því miður hafa orðið að valda þátttakendum vonbrigðum og aflýsa ferðinni enda hafi aðstæður á Hnúknum verið það krefjandi að hann treysti sér ekki til að tryggja viðunandi öryggi og ánægju. Sú ferð var þó farin nokkrum vikum síðar þegar veður var betra.

orkustopp-a-jokli.jpg
Orkustopp í brekkunni góðu

solaruppras-a-jokli.jpg
Sólin kemur upp yfir Öskjubrún


En í ár var frábært veðurútlit frá upphafi og gott betur. ,,Ég veit að ýmsum þótti erfitt að bíða eftir lokatilkynningu frá mér um hvenær lagt yrði af stað í gönguna en ég held að biðin hafi verið þess virði, enda er reynsla mín sú að bestur árangur næst í Hnúksferð þegar tekst að straumlínulaga ferðina með tilliti til besta veðurútlitsins."

Löturhægt af stað

Örlygur segist hafa gert sér enn frekar ljóst hvað þátttakendur höfðu undirbúið sig vel þegar á hólminn var komið og allir voru saman komnir á upphafsstað göngunnar í Sandfelli, skömmu eftir miðnætti aðfaranótt laugardagsins. Oft vilji teygjast fullmikið á því að hægt sé að leggja af stað og taka fyrstu skrefin, þar sem tíma sé eytt í alls konar stúss á bílastæðinu. Þarna hafi fólk hins vegar verið með allan sinn búnað tilbúinn og engar tafir orðið.

Í upphafi var gengið löturhægt upp í 400 metra hæð þar sem fólk fyllti brúsana sína af lækjarvatni í síðasta læknum á leiðinni. ,,Mér finnst alltaf borga sig að fara mjög hægt af stað, allir koma þá tiltölulega ósveittir upp að læk og halda síðan áfram á sama löturhæga röltinu upp í fyrsta formlega kaffistopp í 700 metra hæð," segir Örlygur.

Línustopp við Línustein

Að því loknu hafi gönguhraðinn aukist lítið eitt eða þar til komið var í 1100 metra hæð að svokölluðum Línusteini þar sem fólk skiptir sér niður á farastjóra, bindur sig saman í öryggislínu og fær tilsögn um hvernig ganga á í línu. Örlygur segir að línustoppið svonefnda hafi oft teygst úr hófi en þarna hafi hlutirnir gengið fljótt og vel fyrir sig.

hnukurinn1.jpg
Hnúkurinn blasir við


Dyrhamarinn.jpg
Séð ofan á Dyrhamarinn



,,Ég ákvað í þessari ferð að sleppa því að hraðaskipta í línur enda hefur mér fundist fólk verða of upptekið af því, svona eins og það sé einhver keppni að ganga á Hnúkinn. Svo veldur hugsunin um hvort viðkomandi eigi heima í þessari eða hinni línunni ákveðnum kvíða og er vart á bætandi. Þetta kom vel út og línustjórarnir unnu sjálfstætt í hraðavali þegar allir voru bundir saman. Með þessu varð gott flæði á hópnum upp og niður og ég er á því að kostirnir séu fleiri en gallarnir."

Hvar er brekkan?

Næsti áfangi úr línustoppinu er löng og mikil brekka frá 1100 metrum og upp á Öskjubrún Öræfajökuls í 1800 metra hæð. Þetta er brekka sem margur Hnúksfarinn hefur bölvað bæði í hljóði og upphátt. Brekkan er tilbreytingalaus og virðist aldrei ætla að enda og hefur gjarnan verið kölluð Dauðabrekkan.

,,Sumir gera lítinn greinamun á því hvort brekkan góða sé aflíðandi eða aflífandi," segir Örlygur og kímir. Hann segist hafa gert tilraun á undirbúningsfundunum til að snúa þessu alveg við og kalla brekkuna Lífsbrekkuna, því hvar gefist fólki betra tækifæri til að hugsa um lífið og tilgang þess en í brekku sem aldrei ætlar að enda.

Hvannadalshnukur-2110.jpg
Hæsti tindur landsins: Hvannadalshnúkur 2110 m

,,Og svei mér þá ef það hefur ekki bara tekist, því ég hef ekki fyrr fengið eins jákvæð viðhorf gagnvart brekkunni alræmdu. Þegar við vorum búin með brekkuna og Hnúkurinn sjálfur blasti við, baðaður í morgunsólinni, þá spurði einn bráðhress göngumaður í línunni hjá mér hvar þessi leiðinlega brekka væri eiginlega! Það er ómetanlegt fyrir leiðsögumenn að fá svona jákvæðni frá farþegunum."

Bakpokinn með alla leið

Enn eitt dæmið um einbeitingu þátttakenda og góðan undirbúnig segir Örlygur að hafi sýnt sig í svokölluðu broddastoppi, þegar mannskapurinn er komin að rótum sjálfs Hnúksins og tímabært að spenna brodda undir skóna. Það hafi gengið fljótt og vel fyrir sig og greinilegt hafi verið að fólk var búið að stilla broddana og æfa sig heima í stofu.

sidasta-brekkan.jpg
Í síðustu brekkunni

fagnad-a-toppnum.jpg
Fagnað á toppnum

Á liðnum árum hefur oft borið á því að göngumenn taki af sér bakpokana og skilji þá eftir í broddastoppinu á meðan síðasti parturinn er klifinn og Hnúkurinn toppaður. Örlygur segist vera alfarið á móti þessum sið og hafi því þvertekið fyrir allar beiðnir um að skilja bakpokana eftir undir Hnúknum. ,,Þetta mun ekki gerast á minni vakt. Það eru dæmi um að fólk hafi lent í meiriháttar erfiðleikum af þessum sökum. Í bakpokunum er allur okkar búnaður og sá göngumaður sem er strand uppi á Hnúk eða á öðrum köldum og vindasömum stað og kemst ekki í pokann sinn til að ná sér í fleiri föt eða orku, er verulega illa staddur."

Allir göngumenn á toppinn

Örlygur segir að hann geti varla lýst þeirri tilfinningu með orðum þegar allar þrettán línurnar byrjuðu að paufast hægt og bítandi upp síðustu brekkuna. ,,Það fór um mig ótrúleg tilfinning. Þetta var að hafast. Allir þátttakendur í þessari mannmörgu ferð voru að komast á tindinn. Síðan fóru fagnaðarópin að berast út í blámann þegar hver línan á fætur annarri náði tindinum. Margir höfðu unnið að þessu markmiði mánuðum saman og þetta var því mjög stór stund. Þetta gat ekki orðið betra, glampandi sól og útsýni í allar áttir og eftir níu stunda erfiði áttu göngumenn sigurlaunin alveg skuldlaust," segir Örlygur.

sprungur-a-leidinni.jpg
Nokkrar litlar sprungur á leiðinni

fota-kaeling.jpg
Tær kældar á niðurleiðinni

Hvað næst?

Þegar toppnum er náð þarf svo auðvitað að koma sér niður af fjallinu aftur og það getur heldur betur tekið í, eins og flestir Hnúksfarar geta vitnað um. Örlygur segir að færið hafi tekið að þyngjast á síðari hluta niðurferðarinnar, snjórinn var orðinn blautur í sólbráðinni og þreyta byrjuð að gera vart við sig hjá hópnum. Margir hafi stoppað aftur hjá læknum góða í 400 metra hæð til að kæla tærnar örlítið fyrir síðustu brekkuna og fá sér vel að drekka.

Það voru svo útkeyrðir en hæstánægðir Hnúksfarar sem stauluðust inn á bílaplanið við Sandfell eftir 13-16 klst. göngu, vörpuðu af sér byrðunum, flýttu sér úr skónum, teygðu sig og nudduðu tær. ,,Eftir svona göngu er allir þreyttir en brosandi og hugsunin fer fljótt að snúast um grillsteikur, kalda drykki, heitar sturtur og potta," segir Örlygur, og bætir við: ,,Og svo auðvitað hvaða fjallstopp á að sigra næst."