Fararstjórar FÍ björguðu hundi úr jökulsprungu

Sumardaginn fyrsta gekk 70 manna hópur á vegum Ferðafélags Íslands á Eyjafjallajökul í blíðskaparveðri. Þar var á ferð hópur sem kallast Framhaldslífið en flestir í í hópnum tóku þátt í verkefni FÍ 52 fjöll á ári 2011. Farið var upp frá Seljavöllum. Um svipað leyti var á ferð á jöklinum annar hópur frá Félagi íslenskra fjallalækna (FÍFL). Með þeim var laus Labrador hundur, Tinni að nafni. Tinni féll í jökulsprungu í 1530 metra hæð skammt vestan við Guðnastein.
Forsvarsmenn hópsins höfðu samband við FÍ hópinn og leituðu aðstoðar. Guðmundur Sveinbjörn Ingimarsson, einn fararstjóra FÍ seig 15 metra niður í sprunguna og kom sigbelti utan um Tinna sem var dreginn upp heill á húfi. Guðmundi til aðstoðar var Ólafur Þór Rúdólfsson sem einnig var í hópi fararstjóra FÍ. Þeir Guðmundur eru þrautþjálfaðir björgunarmenn.
Allt er gott sem endar vel og gönguhópurinn sat í sól og logni rétt við vettvanginn meðan þessu fór fram og annaðist fagnaðarlæti þegar bæði Tinni og Guðmundur voru komnir aftur upp úr iðrum jökulsins.