Félagar í Ferðafélaginu Norðurslóð gengu í Ásbyrgi

Í gær stóð Ferðafélagið Norðurslóð fyrir göngu í Ásbyrgi. Tuttugu og tveir þátttakendur á ýmsum aldri hittust við Gljúfrastofu og gengu þaðan inn að Botnstjörn í Ásbyrgi. Reyndar spennti hluti hópsins á sig gönguskíðin og gekk sömu leið.

Ekki var hægt að biðja um betra veður, logn var og sólskin með köflum og nokkurra stiga hiti. Inni í botni Ásbyrgis var snjórinn meiri en þrátt fyrir það var brölt niður að tjörninni. Fýllinn var mættur í björgin og heilsaði göngufólki. Enginn fálki lét sjá sig að þessu sinni, en nú er hann að fita kerlu sína fyrir varpið og ber í hana rjúpur.

Skíðafólkið fór svo skógarstíginn undir bjarginu til baka en hinir gengu sömu leið og þeir komu. Alls voru gengnir 7,3 km.

Skoða myndir sem Sonja Súsanna Hallgrímsdóttir tók í ferðinni >>