Félagsmenn - munið að greiða árgjaldið

Árbók FÍ - 2012 Skagafjörður vestan Vatna eftir Pál Sigurðsson lagaprófessor kom út í byrjun júní og hefur verið afar vel tekið.  Þegar hafa um 5000 félagsmenn greitt árgjald FÍ og fengið árbókina senda heim.  Félagsmenn sem hafa verið á ferð og flugi í sumar eru minntir á að greiða árgjaldið og fá þá árbókina senda heim.

 Árbók 2012 Ferðafélag Íslands 

Skagafjörður vestan Vatna

Árbók Ferðafélags Íslands 2012 er komin út.

Bókin er um Skagafjörð vestan Hérðasvatna og fjallar um svæðið allt frá Skagatá inn að Hofsjökli. Höfundur er Páll Sigurðsson, prófessor og fyrrum forseti Ferðafélags Íslands. Páll fæddist í Reykjavík en ólst upp á Sauðárkróki frá frumbernsku og þekkir vel til í Skagafirði þar sem hann hefur hefur varið mörgum stundum og gengið byggðir jafnt sem óbyggðir.

Auk þess sem bókin er góð lýsing lands og sögu eru í henni upplýsingar um áhugaverðar gönguleiðir.

 Bókin er prýdd fjölda ljósmynda sem flestar voru teknar sérstaklega fyrir bókina. Daníel Bergmann annaðist umbrot á bókinni auk vinnslu ljósmynda. Bókin hefur einnig að geyma vönduð kort sem teiknuð voru af Guðmundi Ó. Ingvarssyni.

Handritalestur var í höndum Árna Björnssonar, Eiríks Þormóðssonar, og Guðrúnar Kvaran. Prófarkalestur var í höndum Helga Magnússonar. Jón Viðar Sigurðsson ritstýrði verkinu.

 Árbækur Ferðafélags Íslands hafa komið út árlega í óslitinni röð frá árinu 1928 og er einstæður bókaflokkur um land og náttúru. Hver bók fjallar venjulega um tiltekið afmarkað svæði á landinu og nær nú efni þeirra um landið allt, víða í annað eða jafnvel þriðja sinn. Árbækur Ferðafélagsins, 85 að tölu, eru því í raun altæk Íslandslýsing á fimmtán þúsund blaðsíðum.

Ferðafélagið hefur alla tíð kostað kapps um að gera árbækur sínar sem best úr garði og jafnan fengið heimamenn á hverjum stað og aðra sérfræðinga til liðs. Þannig hefur verið reynt að gera alla texta- og heimildarvinnu sem traustasta. Mikinn fróðleik um náttúrufar er að finna í bókunum, gróður, fugla og aðra landsins prýði, en ekki síst um jarðfræði og myndunarsögu landsins. Saga og menning skipa háan sess í umfjöllun um byggðirnar. 

Ljósmyndir hafa verið í bókunum frá upphafi og hefur félagið notið liðs ágætra landslags- og náttúrulífsljósmyndara. Framfarir í ljósmyndatækni og prentun hafa skilað sér í fallegri bókum. Sést vel í ritröðinni hvernig bækur hafa skipt um útlit og hönnun eftir kröfum tímans.

Með bréfi þessu fylgir greiðsluseðill vegna árgjalds félagsins. Þegar seðilinn hefur verið greiddur  í næsta banka þá er árbókin sent til viðkomand ásamt nýju félagsskírteini. Að þessu sinni eru það félagsmenn sem dreifa bókinni fyrir félagið.  Aðild að félaginu veitir að venju ýmis fríðindi fyrir félagsmenn; t.d. afslátt í ferðir og skála sem og betri kjör í ýmsum verslunum.

Ferðafélag Íslands