Ferðaáætlun FÍ 2009

 Ferðaáætlun FÍ 2009 komin út      Sækja áætlunina ( pdf - 6Mb)                                                     

Ferðaáætlun 2009Fjallaskóli FÍ, dagsgöngur um Reykjanesskagann, fimm tinda göngur, Fjallabók FÍ og Barnavagnavika eru meðal nýjunga í starfsemi Ferðafélags Íslands.

  Í flokki sumarleyfisferða Ferðafélags Íslands eru Laugavegs- og Hornstrandaferðir sígildar og hafi verið síðasta áratug eða tvo.  Sígild er einnig  ferð um Vatnaleiðina um borgfirsku Alpana og ferð í Héðinsfjörð og Hvanndali og  Ferðafélagið hefur lengi staðið fyrir ferðum í Þjórsárver.  Þá má nefna nýja leið sem félagið hefur byggt upp um Jarlhettuslóðir og verður sífellt vinsælli.  Morgungöngur FÍ sem hófust fyrir 5 árum hafa unnið sér fastan sess en þá er  lagt af stað eldsnemma morguns, fimm daga í röð og gengið á fjöll í nágrenni Reykjavíkur.      

María María fjölskylduferðir

Á dagskrá Ferðafélag Íslands í sumar eru Þórsmerkurferðir undir heitinu María María, sem er vísan í hið þekkta ljóð Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings.  Það eru ekta fjölskylduferðir með varðeldi, grillveislu og kvöldvöku. Þessar ferðir eru nýmæli og eins Fjallatindarnir fimm þar sem gengið verður á Tröllakirkju ofan Hítarvatns, Helgrindur á Snæfellsnesi, Tröllakirkja á Holtavörðuheiði, Kirkjufell í Grundarfirði og Botnssúlur.  Helgarferðir yfir Fimmvörðuháls og í Þórsmörk njóta ávallt vinsælda.

Gönguferðir um Reykjanesfólkvang

Í samvinnu við Reykjanesfólkvang mun FÍ í sumar efna til nokkurra dagsferða en fólkvangurinn er örskammt frá mesta þéttbýlissvæði landsins og er  ósnortin náttúruparadís með óþrjótandi ævintýraleiðum.  Meðal annars verður farið að Selatöngum og um Krýsuvíkurberg. Reykjanesið hefur verið nokkuð í umræðunni síðustu misserinni vegna fyrirhugaðra virkjana og auðlindanýtingar. Í seinni tíð er fólk er almennt orðið mikið meðvitaðra um þá auðlind sem ósnortin náttúra er og vill fólk taka upplýsta afstöðu til málsins. Ferðir um þau svæði sem hverju sinni eru í umræðunni hafa verið mjög fjölmennar.

Barnavagnavika og ókeypis gönguferðir

Um miðjan maí verða á dagskrá FÍ barnavagnagöngur. Með þeim er ætlunin að gefa ungu fólki með ungabörn í vagni tækifæri á að sýna sig og sjá aðra í skemmtilegum gönguferðum. Barnavagnagöngurnar verða kynntar í fjölmiðlum og á heimasíðu FÍ  þegar þar að kemur en hugsunin  er  sú að lagt verði upp frá ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu umrædda viku klukkan 18 síðdegis og  gengið  í hálfa aðra klukkustund. Ætlunin er að fara um Elliðaárdal, Öskjuhlíð, Heiðmörk, Fossvogsdal og út  í  Gróttu.  Þátttaka er ókeypis í barnavagnavikuna og á það reyndar við um fjölmargar ferðir FÍ . Má þar nefna morgungöngurnar,  örferðir um Grafarholtið,   Göngugleði á sunnudögum, Esjuna eftir vinnu og Esjuna alla daga svo fátt eitt sé nefnt.

Á undanförnum árum hefur ferðamenning þjóðarinnar breyst talsvert. Almennur áhugi á menningartengdri ferðamennska hefur aukist – sem  tengist  forvitni fólks um sögu, atvinnuhætti, náttúrufar, ferðaleiðir og sérkenni þeirra svæða sem ferðast er um. Í því sambandi gegna  árbækur Ferðafélagsins stóru hlutverki, en einnig góðir fararstjórar og vel menntaðir staðarleiðsögumenn.  Íslendingar hafa einnig í auknum mæli  undanfarin  ár nýtt sér svokallaðar trússferðir þar sem allur farangur er fluttur og eru fjölmargar slíkar ferðir á dagskrá FÍ .  

Ungmennaverkefni FÍ

Á síðustu misserum verið lögð  áhersla á að ná til yngra fólks.  Því hefur FÍ hleypt af stað ungmennaverkefni  en hluti af því er meðal annars Fjallaskóli Ferðafélagsins. Sérstakur starfsmaður mun sinna þessu verkefni, svo sem fræðslunni þar sem fjallað verður um hugmyndafræði útivistar og fjallamennsku og félagslega þáttinn í því sambandi . Einnig  náttúruna, búnað, öryggisatriði og fleira slíkt. Fræðslan fer fram í maí  og september í skála Ferðafélagsins í Langadal í Þórsmörk þaðan sem verður svo lagt upp í gönguferðir upp um fjöll og firnindi.

Forvarnarstarf

Einnig má nefna nýlegt samkomulag FÍ og  Astma- og ofnæmisfélagsins um gönguferðir og undirbúning fyrir göngu á Hvannadalshnúk. Það er forsmekkur að víðtækara samstarfi í svipuðum dúr hjá FÍ sem  vill  í samstarfi við heilbrigðisþjónustuna og ýmsa hópa bjóða upp á forvarnar- og heilsubótargöngur með fararstjóra  og þjálfara, en fátt er  hollara  og ódýrara en einmitt góðar gönguferðir.

Sækja áætlunina ( pdf -6Mb)