Ferðaáætlun FÍ 2011

Margar nýjungar í Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands 2010

 

Sigrun-450
Sigrún Valbergsdóttir, formaður ferðanefndar og varaforseti FÍ

Skoða landið með öðrum augum en venja er

Fjölmargra nýjunga sér stað í ferðaáætlun Ferðafélags Íslands fyrir árið 2011 sem nú liggur fyrir.  Þriðjungur dagsferða eru nýjungar. Þar má nefna ferðir að gosstöðvum á Fimmvörðuhálsi og á Eyjafjallajökul. Þá er meira en helmingur helgarferða um slóðir sem ekki hafa verið farnar áður. Má þar til dæmis nefna ferð umhverfis Kerlingarfjöll sem hefur fengið nafnið Hringbrautin sem rímar við nöfn annara þekktra gönguleiða á hálendinu, svo sem Laugavegur og Skólavörðustígur.

Ein af fastanefndum FÍ er ferðanefndin sem setur saman ferðaáætlun hvers ár með áherslu á sumarmánuðina frá maí og fram í september. Ferðanefnd skipa Sigrún Valbergsdóttir, Haraldur Örn Ólafsson, Leifur Þorsteinsson, Páll Ásgeir Ásgeirsson, Sigríður Lóa Jónsdóttir, Valtýr Sigurðsson og Þórhallur Ólafsson.

Um landið í huganum

„Ferðanefndin er skipuð valinkunnu fólki með mikla reynslu og þekkingu af landinu og ferðum um það. Miklu skiptir að allt landið sé undir þegar ný ferðaáætlun er sett saman – jafnframt því sem haldið sé í hefðir þannig að á dagskrá séu ferðir sem hafa unnið sér sess,“ segir Sigrún Valbergsdóttir formaður ferðanefndar.

Allmargar ferðir í áætlun FÍ þetta árið eru í samstarfi við ýmsar stofnanir og félagasamtök, til að mynda Landvernd og Háskóla Íslands sem er 100 ára um þessar mundir. Þá eru allar ferðir – bæði lengri og skemmri - sem deildir innan vébanda FÍ standa fyrir, tíundaðar í ferðaáætlun.

„Þótt farið sé um kunnuglegar slóðir reynum við eftir megni að brjóta hefðir upp og skoða landið með öðrum augum en venja er,“ segir Sigrún Valbergsdóttir. Nefnir þar Vöruferð að Fjallabaki með Ólafi Erni Haraldssyni forseta Ferðafélags Íslands, þar sem aldargamlar vörður verða kannaðar og skyggnst inn í gömul sæluhús.

Tröllaskagi og Strandir

„Alls eru sumarleyfisferðirnar í ár 37 og þriðjungur þeirra nýjar. Því er af nógu að taka. Gaman er að benda á Draugaferð fyrir alla fjölskylduna um Kjöl í fararstjórn Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, rithöfundar og Helga Geirharðssonar, en Kristín hefur einmitt skrifað magnaða bók um þetta svæði. Þá erum við með skemmtilega símahúsaferð um Haugsöræfi í fararstjórn Ævars Kjartanssonar, útvarpsmanns, sem rifjar upp framfarir og framsýni á Íslandi fyrir rúmri öld,“ segir Sigrún.

Á ferðaáætlun komandi sumars eru nokkrar ferðir um  Lónsöræfi og á Eyjafjallajökul. Einnig hefur verið sett á dagskrána ferð um Tröllaskaga en jarðgöngin nýju sem tekin voru í notkun sl. haust opnuðu marga skemmtilega möguleika til gönguferða um Héðinsfjörð og Hvanndali. Einnig er á dagskrá sumarsins ferð um Strandir þar sem gert er út frá skála Ferðafélags Íslands að Valgeirsstöðum í Norðurfirði. Þar sem vegurinn hendar heitir ferðin og er nefnd eftir bók Hrafns Jökulssonar um þetta svæði, Þar sem vegurinn endar. Þá er raðganga FÍ þetta árið á Ströndum þar sem fetað verður, annað sumarið í röð, suður Strandasýsluna eins og Þórbergur Þórðarson gerði svo eftirminnilega fyrir um öld síðan.