Ferðaáætlun FÍ 2017 er nú komin í prentsmiðju, stútfull af spennandi ferðum af öllum stærðum og gerðum þar sem allt landið er undir.
Í ferðaáætluninni má finna bæði lengri og styttri ferðir. Þar eru til dæmis hinar sígildu sumarleyfisferðir þar sem ferðast er um byggðir og óbyggðir, til stranda og upp til fjalla, ýmist með allt á bakinu eða þar sem farangur er fluttur á milli staða.
Í áætluninni er einnig mikið úrval af dagsferðum, fræðsluferðum, söguferðum og skemmtiferðum. Boðið er upp á ferðir um allt land, allt frá göngustígum í þéttbýli, um grænar sveitir, óbyggðir og upp á hæstu tinda. Allir eiga finna eitthvað við sitt hæfi.
Fjölmörg og fjölbreytileg fjallaverkefni er að finna í áætluninni og ný og spennandi hreyfiverkefni. Þá ber að nefna úrval af námskeiðum, gönguskíðaferðum og fjallaskíðaferðum.
Ferðaáætluninni verður dreift til félagsmanna 6. janúar og bókanir hefjast mánudaginn 9. janúar.
Hægt er að gefa gjafabréf í ferðir og fást þau á skrifstofu FÍ og eru tilvalin jólagjöf fyrir ferðafélaga.