Ferðafélag Akureyrar stofnað 1936

Á Öskjuveginum í júlí 2014: Gengið frá Dreka vestur í Öskju.
Á Öskjuveginum í júlí 2014: Gengið frá Dreka vestur í Öskju.

Ferðafélag Akureyrar (FFA) var stofnað þann 8. apríl 1936. Var það fyrsta deildin í Ferðafélagi Íslands (FÍ) utan Reykjavíkur. FFA beitti sér frá upphafi einkum fyrir ferðum um Norðurland en auk þess hefur oft verið farið á vegum félagsins í aðra landshluta og stöku sinnum erlendis.

 

Ferðafélag Akureyrar hefur lengi staðið fyrir skálabyggingum í óbyggðum. Elsti skáli félagsins var reistur við Laugafell árið 1948. Í dag á FFA skála á sjö stöðum á hálendinu: Í Herðubreiðarlindum (Þorsteinsskáli), við Drekagil austan Dyngjufjalla (Dreki), við Laugafell suður af botni Eyjafjarðar (Laugafell), í Dyngjufjalladal (Dyngjufell), við Suðurárbotna (Botni) og við botn Glerárdals suðvestan Akureyrar (Lambi). Alls eru gistirými fyrir 198 manns í þessum skálum. Auk þess á FFA vönduð skálavarðarhús og snyrtihús í Herðubreiðarlindum, við Drekagil og við Laugafell og við þessa þrjá skála er varsla yfir sumarmánuðina.

ReistarskarðSkíðaferð FFA í Reistarárskarð og á Flár í maí 2015 

 

Ferðafélag Akureyrar hefur frá upphafi skipulagt ferðir fyrir almenning á áhugaverða staði. Félagið stendur fyrir gönguferðum allan ársins hring. Er þá einkum farið á skíðum að vetrinum en fótgangandi á sumrin. Fyrr á árum skipulagði FFA ökuferðir um Norðurland og víðar en með vaxandi bílaeign almennings lögðust þær ferðir að mestu af. Á seinni árum er best aðsókn í ferðir á staði sem fólk á erfitt með að heimsækja á eigin spýtur. Þannig hafa skipulagðar ferðir á Kerlingu við Eyjafjörð og Herðubreið verið mjög vinsælar. FFA hefur einnig byggt upp gönguleið þvert yfir Ódáðahraun, Öskjuveginn. Þá er gengið á milli skála FFA á svæðinu en nesti og svefnpokar ferjað á milli skálanna með trússbílum.

 

Þorvaldsdalur

Skíðaferð FFA á Þorvaldsdal í apríl 2008

 

Ferðafélag Akureyrar hefur um árabil beitt sér fyrir merkingu gönguleiða á hálendinu. Þannig hefur félagið stikað tugi kílómetra af gönguleiðum síðustu 30 árin, ekki síst á Öskjuveginum og í Glerárdal en einnig á Vaðlaheiði og í fjöllunum milli Eyjafjarðar og Skjálfanda. Í tengslum við merkingar gönguleiða hefur FFA gefið út gönguleiðakort af Glerárdalssvæðinu, Vaðlaheiði og Öskjuveginum.

Á Öskjuveginum í júlí 2010: Gengið fyrir upptök Bæjarlækjar í Suðurárbotnum

 

Ferðafélag Akureyrar rekur skrifstofu í Strandgötu 23 á Akureyri. Skrifstofan er opin alla virka daga, sími 462 2720, netfang ffa@ffa.is. Þá hefur félagið heimasíðu undir vefslóðinni www.ffa.is. Þá gefur FFA út vandað ársrit, Ferðir, sem er dreift til félagsmanna með árbók FÍ. Í byrjun hvers árs gefur FFA út bækling með upplýsingum um ferðir ársins. Í bæklingnum fyrir 2017 er alls 51 ferð á áætlun, frá stuttum kvöldferðum upp í fimm daga ferð um hálendið. Í árslok 2016 voru skráðir félagar í FFA alls 481.

Ingvar Teitsson