Ferðafélag Austur-Skaftfellinga var stofnað 9. mars 1980 og er því 30 ára um þessar mundir. Rannveig Einarsdóttir, formaður félagsins sagði í samtali við heimasíðu FÍ að félagsmenn horfðu glaðir til framtíðar á þessum tímamótum og rífandi gangur væri í starfinu.
Félagið rekur einn skála, Múlaskála í Lónsöræfum og hefur gistináttum þar fjölgað verulega milli ára og mikið bókað í sumar.
Sunnudaginn 14. mars kl. 14.00 verður afmæliskaffi í Nýheimum á Höfn þar sem félagsmenn og velunnarar fagna saman og deila minningum og myndum. Dregið verður lukkuleik Strandgöngu sem staðið hefur yfir og kynnt ferðadagskrá komandi sumars.
Í sumar verður afmælisins minnst með ýmsum hætti. Búið er að skipuleggja hópferð til Noregs og helgina 23-25 júlí verður efnt til afmælisgleði í Lónsöræfum. Þar verður boðið upp á mismunandi gönguferðir við sem flestra hæfi.
Náttúruperlan Lónsöræfi er magnaður staður þar sem logandi líparít, angandi birkiskógar og beljandi jökulsár heilla gesti. Steinrunninn flokkur trölla í Tröllakrókum, himinháir nafnlausir fossar og sérstæð eyðibýli og yfir dýrðinni gnæfa skínandi þök Vatnajökuls og klettaborgir hárra tinda.