Ferðafélag barnanna

Ferðafélag barnanna var stofnað árið 2009 að fyrirmynd norska Ferðafélagsins DNT. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að hlúa að heilbrigði og virkni allra barna og fjölskyldna og með stofnun Ferðafélags barnanna leggur Ferðafélag Íslands sitt lóð á vogarskálarnar. Með þessu nýja félagi verður lögð áhersla á að bjóða upp á ferðir og uppákomur á forsendum barnanna með það fyrir augum að víkka sjóndeildarhring þeirra og upplýsa um heilbrigða lífshætti úti í náttúrunni.

Höfuðmarkmið Ferðafélags barnanna

Höfuðmarkmið Ferðafélags barnanna er að fá öll börn til að upplifa sanna gleði í náttúrunni og upplifa leyndardóma umhverfisins. Ferðir FB eru á forsendum barnanna og þær verða sniðnar að þörfum barna upp að 12 ára aldri. Þeim má skipta gróflega í 3 flokka:

Leikskólaaldur 0 - 6 ára. Hér er um að ræða mjög fjölbreyttar ferðir - stuttar ferðir með barnavagna, fjöruferðir, hestaferðir, stuttar fjallgöngur. Ferðir í grunn­búðir Esjunnar, Heiðmörk, Elliðaárdal o.fl.

Grunnskólaaldur 6 - 9 ára. Á þessum aldri er athafnaþrá í hvað mestum blóma og nauðsynlegt að veita þessum aldri sérstaka athygli. Þau geta lagt á sig talsverðar göngur ef hugsað er vel um grunnþættina, - aldrei svöng, aldrei kalt og aldrei leið. Þessi aldur gerir kröfur til virkrar þátttöku í öllu og þarf að skipuleggja vel ratleiki eða rifja upp „íslenska" leiki og stefna markvisst að því að börn á þessum aldri og foreldrar séu saman á virkan hátt.

Aldurinn 10 - 12 ára er að öðlast meira sjálfstæði og þau vilja láta reyna á eigin getu. Foreldrar eru þó með að sjálfsögðu, en kannski ekki eins virkir þar sem félagarnir eru á þessum aldri að ná æ meiri athygli. Hér verða skipulagðar dagsferðir, t.d. í Þórsmörk eða Landmannalaugar - farið í fjallgöngur, safnað fjöllum o.s.frv.

Með því að stofna Ferðafélag barnanna er Ferðafélag Íslands að vinna að því markmiði sínu að hvetja til ferða og náttúruupplifunar.

Útivera:

  • er nátengd heilsuvernd og hefur fyrirbyggjandi áhrif gegn sjúkdómum á líkama og sál,
  • byggir á ríkum hefðum og gildum sem eru samtvinnuð samfélagi okkar,
  • er fjölskylduvæn,
  • eflir og tryggir skuldbindingu þjóðarinnar um öfluga náttúruvernd,
  • getur stuðlað að bættu gildismati varðandi sjálfbæra nýtingu náttúrunnar,
  • dýpkar skilning hjá börnum og fjölskyldufólki á mikilvægi góðrar umgengni við náttúruna og náttúrvernd,
  • skapar áhuga á útiveru og náttúruvernd sem endist um aldur og ævi.

Þegar náttúruvernd er annars vegar, er það tilhneyging hagsmunasamtaka og þeirra sem sinna æskulýðsstarfi að einblína á mengun og náttúruspjöll. Þeir fullorðnu beina þeim tilmælum til barna að þau eigi að taka ábyrgð. Er þetta leiðin til þess að börnin upplifi sig sem mikilvægan hluta af heildinni og öðlist jákvæð viðhorf til náttúrunnar? Við kjósum að láta börnin upplifa margt gott í náttúrunni sem leggur grunn að tengingu einstaklingsins við hana.

Í stuttu máli getum við sagt að náttúran:

  • sé sannkölluð paradís fyrir fjölbreytta leiki og skemmtun,
  • örvi skynjun okkar á umhverfi okkar,
  • býður upp á mismunandi og fjölbreytta hreyfingu,
  • gerir börnum kleift að skapa sitt eigið leik­umhverfi,
  • er full af spennandi uppgötvunum og áskorunum,
  • er nánast óendanlega fjölbreytt,
  • er laus við stétta- og stöðuskiptingu,
  • fær hugann á flug!
  • færir okkur tímaleysið (skógurinn, fjallið og áin hafa alltaf verið þarna),
  • byggir upp andlega tilveru okkar,
  • stuðlar að góðum gildum og viðhorfum.

Útivist hefur uppeldislegt gildi

Það er margt sem betur má fara í uppeldi barna og má t.d. benda á eftirfarandi staðreyndir til að undirstrika nauðsyn svona átaks: börn horfa á fjölmiðla að jafnaði þrisvar sinnum á dag (sjónvarp, vídeó, tölvur),börn eyða þremur fjórðu af tíma sínum í ýmislegt atferli sem er stýrt af fullorðnum og mörg eru í skólum og frístundaheimilum allan daginn,börn eru í stöðugt auknum mæli keyrð á áfangastað,helmingi barna er ekið í skólann,færni í samhæfingu barna fer versnandi,þyngd eykst stöðugt og líkamlegt þol versnar,fimmta hvert tíu ára barn hefur einkenni vöðva- og beinavandamála,öll börn geta gerst félagar í Ferðafélagi barnanna og verður árgjaldi stillt í hóf,börnin fá sín skírteini sem gilda sem aðgangskort að hinum ýmsu viðburðum.