Ferðafélag barnanna býður til leiksýningar

Ferðafélag barnanna og FÍ bjóða til leiksýningar

Ferðafélag barnanna og FÍ bjóða til leiksýningar á leikritið Ævintýrið um augastein sunnudaginn 13. desember kl. 12.00.  Leikritið er eftir Felix Bergsson leikara og fararstjóra hjá Ferðafélaginu en hann leikur einleik í þessari fallegu sýningu.   Þess má geta að barnabókin Ævintýrið um Augstein fékk glimrandi viðtökur fyrir jólin 2003 og seldist í þúsundum eintaka. 

Ævintýrið um Augastein var frumsýnt í London árið 2002 og á Íslandi árið 2003.  Verkið byggir á hinni sígildu sögu um Grýlu og jólasveinana en ævintýrið er tekið lengra og sagan um litla drenginn, sem nefndur er Augasteinn, verður miðpunktur leikritsins.  Augasteinn lendir fyrir tilviljun í höndum hinna hrekkjóttu jólasveina sem læra smám saman að elska litla drenginn og annast hann.  Skyndilega kemst Grýla á snoðir um tilveru barnsins og við tekur æsispennandi flétta.  Ná jólasveinarnir að bjarga Augasteini úr klóm Grýlu og Jólakattarins áður en jólin ganga í garð?  Það er Felix Bergsson sem leikur öll hlutverkin í Ævintýrinu um Augastein.  

Félagsmenn í FÍ og eða þeir sem hafa skráð sig í Ferðafélag barnanna geta hringt í skrifstofu FÍ, s. 568-2533 á milli 12 - 17 og pantað miða sem verða afhendir fyrir sýningu skv. nafnalista. Hægt er að taka alla fjölskylduna með.