Undirbúningsstjórn að Ferðafélagi Barnanna sem verður deild í Ferðafélagi Íslands kom saman á fundi á skrifstofu FÍ í dag. Ferðafélag Barnanna mun starfa á öllu landinu og stofnaðar verða barnadeildir um allt land. Markmið Ferðafélags Barnanna er fyrst og fremst að gefa börnum og unglingum tækifæri til njóta þess að vera í náttúru landsins og hafa gaman.
Skuli Björnsson verkefnisstjóri ungmennastarfs hjá Ferðafélaginu segir stofnun Ferðafélags Barnanna mjög spennandi og verkefnið verði kynnt ítarlega á næstunni.
;; Á meðal þess sem við ætlum að gera er að bjóða upp á sérstakar fjölskyldudaga, bæði í Heiðmörk, Esjunni og í Kaldárseli. Þá verðum við með ferðir fyrir leikskólabörn í Esjunni, unglingaferðir á Hornstrandir, fjölskylduferðir í Þórsmörk og verið er að vinna að námskrá fyrir Fjallaskóla FÍ í Þórsmörk,"
Skúli segir að á næstunni verði opnaður nýr vefur Ferðafélagsins, www.ferdafelagbarnanna.is en þar verði að finna upplýsingar og fróðleik um ferðir og náttúru.
Í undirbúningsstjórn Ferðafélags Barnanna eru Magnús Hákonarson, Fríður Halldórsdóttir, Haraldur Örn Ólafsson, Auður Kjartansdóttir og Guðný Sigurðardóttir.
Á þessum fyrsta fundi voru einnig Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ, Páll Guðmundsson og Skúli Björnsson.