Boðað hefur verið til aðalfundar Ferðafélags Ísafjarðar þar sem áformað er að endurreisa félagið. Ferðafélag Ísafjarðar var stofnað fyrst 1949 og starfaði til 1957. Næst var félagið endurvakið 1979 og starfaði þá með nokkurri reisn í 6-7 ár en lagðist svo í dvala á ný.
Endurreisn félagsins er merki um stóraukinn áhuga á ferðalögum og útivist sem gætir víða um land og hefur t.d. sést í stofnun nýrra ferðafélaga á nokkrum stöðum undanfarin misseri. Ferðafélag Ísafjarðar hefur aðsetur á Ísafirði en handan Djúps eru Hornstrandir og Jökulfirðir sem eru meðal eftirsóttustu ferðamannasvæða landsins og verður varla kallað annað en fjársjóður.