Ferðafélag Íslands 80 ára

Ferðafélag Íslands var stofnað 27. nóvember 1927. Aðalhvatamaður að stofnun þess var Sveinn Björnsson, er þá var sendiherra í Kaupmannahöfn en síðar forseti Íslands. Að hvatningu Sveins tók Björn Ólafsson stórkaupmaður að sér að stofna félagið en Björn var mikill ferðamaður og áhugamaður um óbyggðir Íslands. Björn fékk til liðs við sig 8 mæta menn til að undirbúa stofnfund og semja ávarp til almennings um þann fund.

                   
        Jón Þorláksson

         Björn Ólafsson

Ávarp til almennings:

" Á síðari árum hefur mjög aukist áhugi manna um að ferðast hér um og kynnast óbyggðum landsins og öðrum lítt kunnum landshlutum. Áhugi hefur einnig vaknað fyrir því að kynna landið erlendum þjóðum, náttúru þess, sögu og þjóðhætti. Hefur mönnum fyrir löngu ljóst orðið að fáfræði erlendra þjóða um hagi vora er oss til hinnar mestu óþurftar á ýmsan hátt, og mundi oss á ýmsan veg reynast stórhagur að aukinni þekkingu á landi voru erlendis.

Hér á landi er enginn félagsskapur sem beitir sér fyrir því að kynna landið út á við né inn á við, eins og á sér stað í flestum löndum Norðurálfunnar. Á Norðurlöndum er slíkur félagsskapur ( Turistforeninger) í hverju landi öflugur mjög, sem hefur margbrotið verk með höndum um að auka þekkingu manna á náttúru landsins, örva áhuga á ferðalögum og greiða fyrir því á ýmsan hátt. Vér undirritaðir álítum mjög æskilegt að slíkur félagsskapur yrði stofnaður hér á landi. Mun það varla orka tvímælis að félagsskapur sá mætti verða þjóðinni til hins mesta gagns og leysa úr ýmsum þeim viðfangsefnum sem engan eiga hér formælanda nú, viðfangsefnum sem ekki verður fram hjá gengið gaumlaust til lengdar. Til þess að koma þessu máli á framfæri leyfum vér oss að bjóða öllum, er áhuga hafa um þetta mál, til fundar í Kaupþingssalnum sunnudaginn 27. nóvember 1927 kl. 2. Þar verður félagið stofnað á þessum fundi. "

(sign) Björn Ólafsson, Níels P. Dungal, Einar Pétursson, Haraldur Árnason, Jón Þorláksson, Skúli Skúlason, Tryggvi Magnússon, Stefán Stefánsson, Valtýr Stefánsson, Helgi Jónasson frá Brennu og Geir G. Zoega.

Stofnfundurinn:

Stofnfundurinn var haldinn eins og að framan sagði 27. nóvember 1927. Stofnfélagar voru 63. Félaginu voru sett lög og því kosin stjórn. Jón Þorláksson var kosinn forseti félagsins. Hann var verkfræðingur að mennt, hafði verið landsverkfræðingur og lengi einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum landsins, síðast forsætisráðherra.

Markmið Ferðafélags Íslands er að hvetja til ferðalaga um Ísland og greiða fyrir þeim.

Jafnframt að vekja áhuga Íslendinga á landinu sínu , náttúru þess og sögu og efla vitund þeirra um nauðsyn varfærni í samskiptum manns og náttúru.


Markmiðum sínum nær félagið meðal annars með:

  • Ferðaáætlun hvers árs, þar sem í boði eru skipulagðar ferðir um náttúru landsins. Í Ferðaáætlun eru meðal annars, dagsferðir, helgarferðir, sumarleyfisferðir og hálendisferðir.

  • Byggingu ferðaskála og þjónustu við ferðamenn í óbyggðum landsins. FÍ og deildir þess eiga 34 ferðaskála á hálendinu og víðar sem standa landsmönnum opnir gegn vægu gjaldi.

  • Útgáfustarf:  Á hverju ári er gefin út árbók sem fjallar með ítarlegum hætti um afmörkuð, en áhugaverð svæði á Íslandi. Árbækurnar gefa í senn ferðafólki góðar ferðaupplýsingar og veita einnig innsýn í sögu og þjóðlegan fróðleik.

  • Ferðafélagið gefur út ýmiskonar smárit og handbækur ár hvert. Hér má finna upplýsingar um útgefið efni um einstök svæði og einnig er hægt að panta með einföldum og þægilegum hætti það efni sem áhuga vekur.

  • Félagslif innan FÍ er mikilvægur þáttur í starfinu, þar sem staðið er fyrir myndakvöldum, spilakvöldum, fyrirlestrum og ýmsu öðru.

  • Fyrsta ferð á vegum Ferðafélagsins var farin 1929 með 31 þátttakanda. Nú eru farnar um 100 ferðir á ári með yfir 2000 þátttakendum. Á 79 árum hefur Ferðafélagið efnt til meira en 8700 ferða með yfir 205.000 þátttakendum