Fréttatilkynning frá Ferðafélagi Íslands
Frá stofnun FÍ hefur félagið staðið fyrir yfir 2000 ferðum með yfir 200 þúsund þátttakenda. Myndin er frá ferð FÍ í Þúfuver 2005 þar sem 220 manns voru með í för.
Ferðafélag Íslands 80 ára
Ferðafélag Íslands verður 80 ára 27. nóvember nk.
Í tilefni dagsins boðar FÍ til hátíðarfundar í Norræna húsinu 27. nóvember kl. 15.30.
Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson mun ávarpa fundinn, Páll Skúlason prófessor og Pétur Gunnarsson rithöfundur flytja erindi.
Forseti FÍ Ólafur Örn Haraldsson mun veita gullmerki FÍ til bæði félagsmanna innan FÍ og einnig til einstaklinga sem hafa með framúrskarandi hætti starfað á kjörsviðum félgsins. Í lok hátíðarfundarins verður boðið upp á léttar veitingar.
Í tilefni afmælisins mun stjórn félagsins samþykkja sérstaka hátíðarsamþykkt þar sem ungt fólk er sérstaklega boðið velkomið í félagið sem og að FÍ mun nú bjóða grunnskólum landsins upp á samstarf um fræðslu vegna fjallamennsku. Í framhaldi af þessari hátíðarsamþykkt munu 45 nemendur í 10. bekk Smáraskóla ganga í Ferðafélagið á hátíðarfundinum. Vegna þessa samstarfs FÍ og Smáraskóla fá allir þessir nemendur flíspeysu frá FÍ, fjallanámskeiðs og hjólaferð að Fjallabaki í sumar.
FÍ býður einnig til afmælisveislu í sal félagsins í opnu húsi á milli kl. 18.00 20.00. Þar verður boðið upp á kaffi og meðlæti fyrir félagsmenn, vini og velunnara félagsins.
Ferðafélag Íslands var stofnað 1927. Markmið félagsins voru í upphafi að hvetja landsmenn til að ferðast um og kynna sér landið; byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn í óbyggðum og standa fyrir útgáfu og fræðslu. Markmið félagsins í dag eru enn þau sömu. Ferða og fjallmennska nýtur mikilla vinsælda í dag og gegnir FÍ þar mikilvægu hlutverki sem brautryðjandi og áhugamannafélag sem stendur öllum opið og byggir upp aðstöðu og veitir þjónustu sem allir ferðamenn hafa aðgang að.
Með starfi sínu og markmiði sinnir FÍ umhverfismálum og náttúruvernd á margvíslegan hátt. Félagið hefur sinnt gróðurrækt og landgræðslu meðal annars í Þórsmörk og Heiðmörk og á fleiri stöðum þar sem félagið rekur skála.
Árbækur FÍ um afmörkuð svæði á landinu hafa komið út í óslitinni röð í 80 ár og er ein vandaðasta Íslandslýsing sem völ er á. Auk þess stendur FÍ fyrir útgáfu á fræðsluritum og landakortum. Fjölmargir áhugamenn starfa fyrir félagið í ritnefnd og útgáfunefnd.
Ferðaáætlun FÍ kemur út í ársbyrjun hvers árs og er boðið upp á fjölda sumarleyfisferða, helgarferða, dagsferða, jeppaferða og skíðaferða. Frá upphafi hefur félagið staðið fyrir yfir 2000 ferðum með þátttöku yfir 200 þúsundum manns. Innan félagsins eru starfandi um 30 fararstjórar sem starfa sem áhugamenn í sjálfboðavinnu. Í ferðanefnd félagsins situr hópur áhugafólks sem skipuleggur ferðir hvers árs.
Starfandi eru 10 deildir innan FÍ sem starfa í anda félagsins, bjóða upp á ferðir, byggja upp skála og gönguleiðir og sinna útgáfustarfi.
FÍ og deildir þess reka 40 skála í óbyggðum landsins, bæði stóra fjallaskála sem og minni gönguskála og má þar nefna Landmannalaugar, Þórsmörk, Nýjadal, Norðurfjörð, Dreka í Drekagili, Sigurðarskála í Kverkfjöllum, Brúnavík og Breiðavík, Karlsstaði í Vöðlavík, Múlaskála í Lónsöræfum sem og Hvítárnesskála, elsta fjallaskála landsins. Fjölmargir félagsmenn koma að rekstri skálanna með sjálfboðavinnu í vinnuferðum. Hver skáli hefur sinn fóstra sem hefur umsjón með sínum skála.
Í Ferðafélagi Íslands eru nú tæplega 8000 þúsund manns. Á undanförnum tveimur árum hafa um 2000 nýir félagsmenn gengið í félagið, flestir á aldrinum 20 40 ára.
Markmið stjórnar FÍ er að fjölga félagsmönnum verulega á næstu misserum.
Í stjórn FÍ sitja: Ólafur Örn Haraldsson forseti, Sigrún Valbergsdóttir varaforseti, Elísabet Jóna Sólbergsdóttir gjaldkeri, Unnur V. Ingólfsdóttir ritari, Ívar J. Arndal, Valtýr Sigurðsson, Sigríður Anna Þórðardóttir, Páll Ásgeir Ásgeirsson og Magnús Hákonarson. Framkvæmdastjóri FÍ er Páll Guðmundsson.