Ferðafélag Íslands var stofnað 27. nóvember 1927. Félagið er áhugamannafélag og tilgangur þess er að stuðla að ferðalögum um Ísland og greiða fyrir þeim. Allir eru velkomnir í félagið og félagsmenn njóta umtalsverðra fríðinda í formi veglegrar árbókar ár hvert og verulegs afsláttar af gistingu í skálum og fargjaldi í ferðum félagsins og deilda þess. Þar að auki veita fjölmörg fyrirtæki félagsmönnum afslátt af þjónustu sinni.
Innan vébanda F.Í. starfa 15 deildir í anda FÍ sjálfstætt víða um landið. Margar þeirra eiga og reka skála og halda úti ferðum allan ársins hring.
Í Ferðafélagi Íslands eru um sjö þúsund félagsmenn. Auk ferða af ýmsum toga er margvíslegt félagslíf innan félagsins. Yfir vetrarmánuðina er efnt til myndakvölda, kvöldvaka, spilakvölda, þorrablóta og margs fleira. Allir slíkir viðburðir eru kynntir með góðum fyrirvara hér á heimasíðu félagsins.
Skálar Ferðafélags Íslands og deildanna úti um land eru þægilegir áningarstaðir á ferðalagi um óbyggðir Íslands. Þau eru á 38 stöðum víðsvegar um land og allur almenningur getur nýtt þau óháð aðild að Ferðafélaginu.
Ferðafélagið leggur sig fram um að mæta þörfum breiðs hóps með miklu úrvali ferða. Í ferðaflóru félagsins er að finna allt frá söguferðum um grösugar sveitir til erfiðra jöklaferða. Í ferðaáætlun félagsins finna flestir eitthvað við sitt hæfi.
Fyrsta ferð á vegum Ferðafélagsins var farin 1929 með 31 þátttakanda. Nú eru farnar um 100 ferðir á ári með yfir 2000 þátttakendum. Frá stofnun hefur Ferðafélagið efnt til meira en 8500 ferða með yfir 200.000 þátttakendum.
Afmælisbarnið er á ferðalagi í dag, í skálaferð á hálendinu.