Áhættumat sem Ferðafélag Íslands hefur unnið að í vetur ´ði samstarfi við VÍS fyrir ferðir félagsins og aðrar vinsælar leiðir var gert ferðaþjónustuaðilum og einstaklingum aðgengilegt í dag á heimasíðu félagsins, þeim að endurgjaldslausu. Er m.a. hægt að skoða áhættumat fyrir Laugaveginn, Fimmvörðuháls og tuttugu gönguleiðir á Esjunni.
„Þarna höfum við ásamt öryggisfulltrúum VÍS farið yfir fjölmargar þekktar ferðaleiðir, til dæmis var allur Laugavegurinn tekinn, skref fyrir skref, og með kortum og myndum var metið á hverjum stað hvaða hættur eru til staðar,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. „Síðan er líka gert heildarmat yfir áhættuna við það að ferðast úti í náttúrunni. Það er allt lagt fram og stendur öllum opið en þetta kemur í framhaldi af vinnu okkar við að taka upp Vakann, sem er umhverfis- og gæðastjórnunarkerfi frá Ferðamálastofu,“ segir Páll. „Þarna höfum við tekið frumkvæði í að gera þetta áhættumat og höfum eytt í það töluverðum tíma og fjármunum en ætlum í ljósi þess hvers konar félag við erum að bjóða öllum að nýta sér þetta endurgjaldslaust.“
Áhættumatið nær yfir Laugaveginn, Fimmvörðuháls, Hvannadalshnúk, Esjuna og Hornstrandir. „Það er gott fyrir alla að geta lesið yfir þetta áhættumat þegar þeir eru að fara af stað og vita hvar hætturnar eru,“ segir Páll. „Svona almennt séð eru hætturnar við að ferðast úti í náttúrunni að hrasa eða hrapa, villast, ofkælast, týnast eða lenda í vandræðum í vöðum og ám. Í framhaldi er bent á hvað hægt sé að gera til að minnka áhættuna og það er þá að huga að góðum búnaði, vera í góðum skóm og fatnaði, vera í fylgd með öðrum, láta vita af ferðum sínum og síðan er einfaldlega besta reglan að snúa frá eða hætta við ef maður er óöruggur um einhver atriði.“
Þegar má finna áhættumat fyrir nokkrar gönguleðir á heimasíðu FÍ og fleri munu verða kynnt á næstu dögum.
Birt af vef mbl.is