Ferðafélag Íslands í Vakann

Starfsmenn FÍ með viðurkenningu Ferðamálastofu eftir innleiðingu gæðaviðmiða Vakans. Frá vinstri; Páll, Ingunn, Steingerður og Helga.
Starfsmenn FÍ með viðurkenningu Ferðamálastofu eftir innleiðingu gæðaviðmiða Vakans. Frá vinstri; Páll, Ingunn, Steingerður og Helga.

Ferðafélag Íslands hefur lokið innleiðingu gæðaviðmiða Vakans og er nú þátttakandi í Vakanum.

Í úttekt Vakans á starfi FÍ var niðurstaðan sú að 94,2 % af almennu gæðaviðmiðunum væru uppfyllt. Ennfremur 100% af þeim sértæku viðmiðum sem við eiga og um leið bronsmerki í umhverfishluta.

Almennu gæðaviðmiðin gilda fyrir allar tegundir ferðaþjónustu, fyrir utan gistingu og sértæku gæðaviðmiðin eru fyrir mismunandi flokka ferðaþjónustu, svo sem gönguferðir í þéttbýli eða á fjöllum. Til að fyrirtæki fá aðild að Vakanum þarf að uppfylla að lágmarki 70% af almennum viðmiðunum og 100% af sértækum viðmiðunum sem við eiga. 

Að auki fjallar sérstakur umhverfisflokkur Vakans um hversu vel fyrirtæki hafa náð að tileinka sér ábyrga starfshætti á sviði umhverfis- og samfélagsmála, meðal annars þegar kemur að notkun á heitu vatni, rafmagni, eldsneyti og magni úrgangs. 

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að það sé mikilvægur áfangi að félagið uppfylli gæðaviðmið Vakans.

,,Vakinn er frábært tæki til að hjálpa okkur til að auka gæðin í starfi félagsins. Þetta hefur verið bæði lærdómsríkt og ánægjulegt ferli að aðlaga það sem var fyrir hendi í 90 ára starfi félagsins að Vakanum,“ segir Páll en Ferðafélagið fagnaði einmitt 90 ára afmæli sínu á þessu ári.

Páll segir að í fyrstu árbók félagsins 1928 hafi forystumenn félagsins þegar verið farnir að leggja línurnar, meðal annars um að bera virðingu fyrir náttúrunni, góða umgengni ferðamanna, réttan búnað, öryggismál, fyrstu hjálp og fleira, þannig að það megi segja að þessar áherslur allt frá stofnun félagsins hafi síðan verið hluti af menningu Ferðafélagsins.