Ferðafélag Íslands kaupir Húsadal

Fréttatilkynnnig

Ferðafélag Íslands kaupir Húsadal

Ferðafélag Íslands hefur keypt skálasvæðið Húsadal í Þórsmörk af Kynnisferðum.  Kaupsamningur var undirritaður í morgun. Húsadalur er annað af tveimur skálasvæðum í Þórsmörk en Ferðafélag Íslands á og rekur skálasvæðið í Langadal í Þórsmörk. Ferðafélagið kaupir allar eignir í Húsadal af Kynnisferðum, m.a. þjónustumiðstöð, svefnskála, snyrtiaðstöðu og önnur hús.  Ferðafélagið tekur við rekstri Húsadals 1. október en Farfuglar reka svæðið í sumar.

Skálarekstur í Þórsmörk hefur verið samofin sögu Ferðafélags Íslands í nær 60 ár þar sem félagið hefur rekið Skagfjörðsskála í Langadal frá 1954.  Ferðafélag Íslands lítur á það sem hlutverk sitt og skyldu að byggja upp aðstöðu og veita þjónustu fyrir ferðamenn.

Ferðafélag Íslands og deildir þess eiga og reka 40 skála um land allt.  Ferðafélag Íslands rekur meðal annars alla skála á Laugaveginum, vinsælustu gönguleið landsins.  

Með kaupum á Húsadal er stjórn Ferðafélagsins að taka fyrstu skrefin þar sem þjónusta verður aukin í stærri skálum félagsins.  Þar er verið að mæta kröfum nútímaferðamanns um bætta aðstöðu og aukna þjónustu.  Ferðafélag Íslands mun eftir sem áður leggja áherslu á að reka áfram skála með frumstæðri aðstöðu og lítilli þjónustu á svæðum þar sem það á við.

Ferðafélag Íslands hefur um langt árabil átt farsælt samstarf við Ferðafélag Noregs og er að horfa til reynslu þeirra af þróun og uppbyggingu í rekstri skálasvæða.

Með kaupunum gefast tækifæri um samnýtingu á rekstri í Langadal og Húsadal sem og ólíkum áherslum á hvoru svæði.  Í Langadal verður nú lögð áhersla á varðveita Skagfjörðsskála og endurnýja í þeim anda og stíl sem skálinn hefur og rekstri Langadals haldið áfram í þeim anda sem verið hefur.  

Ferðafélag Íslands var stofnað 27. nóvember 1927. Félagið er áhugamannafélag og tilgangur þess er að stuðla að ferðalögum um Ísland og greiða fyrir þeim. Allir eru velkomnir í félagið og félagsmenn njóta umtalsverðra fríðinda í formi veglegrar árbókar ár hvert og verulegs afsláttar af gistingu í skálum  og fargjaldi í ferðum félagsins og deilda þess. Þar að auki veita fjölmörg fyrirtæki félagsmönnum afslátt af þjónustu sinni.

Í Ferðafélagi Íslands eru um átta þúsund félagsmenn. Auk ferða af ýmsum toga er margvíslegt félagslíf innan félagsins. Yfir vetrarmánuðina er efnt til myndakvölda, kvöldvaka, spilakvölda, þorrablóta og margs fleira. Allir slíkir viðburðir eru kynntir með góðum fyrirvara hér á heimasíðu félagsins.

Skálar Ferðafélags Íslands og deildanna úti um land eru þægilegir áningarstaðir á ferðalagi um óbyggðir Íslands. Þau eru á 38 stöðum víðsvegar um land og allur almenningur getur nýtt þau óháð aðild að Ferðafélaginu.

Ferðafélag Íslands rekur alla skála Laugaveginum, Landmannalaugar, Hrafntinnusker, Álftavatn, Hvanngil, Emstrur, Langadal og nú Húsadal.

Laugavegurinn er einhver fjölfarnasta og vinsælasta gönguleið um íslensk öræfi. Hróður hennar hefur borist víða, því það eru ekki síður erlendir en íslenskir ferðamenn sem ganga Laugaveginn ár hvert. Þetta er ekki að ástæðulausu því óvíða er jafn mikil fjölbreytni í landslaginu, fjöll í næstum öllum regnbogans litum, háir jöklar, öskrandi hverir, stórfljót, stöðuvötn og margt fleira.  Algengast er að hefja göngu eftir Laugaveginum í Landmannalaugum (600 m.y.s.)
Einnig er hægt að ganga frá Þórsmörk í Landmannalaugar.

Gönguferð um Laugaveginn er krefjandi en ánægjuleg ganga um mjög fjölbreytilegt landslag.

Flestir ganga leiðina á fjórum dögum en það er hægt á bæði skemmri eða lengri tíma. Leiðina ganga þúsundir á hverju ári. Mikilvægt er að göngufólk haldi áætlun til að nýting skálarýmis verði sem best. Þeir sem pantað hafa gistingu í skálum fyrir ferðina, hafa forgang að gistirými.

Laugavegurinn opnar um 20. júní á hverju sumri og af öryggisástæðum og af tilliti við náttúna eru ferðamenn beðnir um að leggja ekki af stað í Laugavegsgöngu fyrr en skálar FÍ á leiðinni opna.