Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ
Í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands taka skólinn og Ferðafélag Íslands höndum saman og standa fyrir reglulegum gönguferðum á afmælisárinu. Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir félagið lengi hafa haft gott samstarf við Háskóla Íslands og að margir kennarar við skólann hafi verið fararstjórar fyrir félagið, setið í stjórn eða nefndum félagsins.
„Þar mætti til dæmis nefna Gísla Má Gíslason, Pétur Ármannsson og Þóru Ellen Þórhallsdóttur. Þá hafa margir fræðimenn innan skólans unnið við árbók félagsins með einhverjum hætti annaðhvort sem höfundar, eins og t.d. Páll Sigurðsson lagaprófessor, sem einnig var um tíma forseti félagsins, eða setið í ritnefnd árbókarinnar, eins og t.d. Guðrún Kvaran og Eiríkur Þormóðsson,“ segir hann og tekur jafnframt fram að hann fagni samstarfinu mjög.
Markmið þess er að færa almenningi afmælisgjöf sem felst í fræðslu og hollri útivist. Um leið er áhugi vakin á fjölbreyttri starfsemi skólans og Ferðafélags Íslands.
„Það er auðvitað stórskemmtilegt og frábært að geta veitt almenningi aðgang að öllum þeim fróðleik sem þessir góðu framsögumenn búa yfir en allar tólf ferðirnar hér í Reykjavík og nágrenni eru ókeypis. Við í Ferðafélaginu lítum á þetta samstarf við Háskóla Íslands sem mikinn heiður “ segir Páll.
Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Gönguferðirnar verða tólf talsins, eins og fyrr segir, og tekur hver um tvær klukkustundir.
Fyrsta gangan verður farin 29. janúar en þá leiða kennarar námsbrautar í sjúkraþjálfun göngu upp á Reykjaborg. Gengið verður frá Hafravatnsrétt eftir merktri gönguleið upp að Borgarvatni og þaðan upp á Reykjaborg. Þaðan verður haldið áfram og hringnum lokað við Hafravatnsrétt. Áætlaður göngutími er innan við tvær klukkustundir. Gangan hefst við Hafravatnsrétt, við Hafravatn. Ekið er að Hafravatni skammt frá Mosfellsbæ. Ef komið er úr Mosfellsbæ eða Reykjavík er ekið meðfram Hafravatni, undir Hafrahlíð, þar til komið er að Hafravatnsrétt, sem er gömul hlaðin rétt. Þaðan er lagt upp í gönguna kl. 11.
Hér á eftir eru gerð greinargóð skil á hinum ellefu gönguferðunum á afmælisárinu:
Byggingar Guðjóns Samúelssonar arkitekts – 2. gönguferð HÍ og FÍ
Hinn 12. febrúar leiðir Pétur Ármannsson arkitekt okkur um miðbæinn til að skoða nokkrar byggingar Guðjóns Samúelssonar og gerir okkur grein fyrir hugmyndum hans um „háborg íslenskrar menningar“ sem átti að rísa á Skólavörðuholti.
Gönguferðin hefst við innganginn í viðbyggingu Alþingishússins kl. 14:00. Leiðin liggur um þá staði í miðbæ Reykjavíkur þar sem byggingar húsameistarans voru reistar og sagt verður frá hugmyndafræðinni að baki þeim. Frá Alþingishúsinu verður gengið að Arnarhól og þaðan upp Skólavörðustíg að Landspítalanum. Að því búnu verður gengið um Sóleyjargötuna og endað í Aðalbyggingu Háskóla Íslands við Sæmundargötu.
Fæðuhringurinn í miðborg Reykjavíkur – saga matar frá landnámi til okkar daga – 3. gönguferð HÍ og FÍ
Hinn 12. mars leiðir Laufey Steingrímsdóttir, prófessor á Rannsóknastofu í næringarfræði á Landspítala og við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, göngu þar sem saga, menning og matur verða meginumfjöllunarefnið.
Gangan hefst á horni Aðalstrætis og Túngötu kl. 11:00 og henni lýkur við Sjóminjasafnið við Grandagarð. Gengið verður um gamla grænmetisgarða, stakkstæði, veitingastaði og verslanir liðins tíma. Samvinna er um gönguferðina við félagið Matur-saga-menning.
Þorpið í borginni – Árbæjarhverfi, vöxtur Reykjavíkur og myndun borgar – 4. gönguferð HÍ og FÍ
Hinn 19. mars leiðir Eggert Þór Bernharðsson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, göngu um Árbæinn og fjallar um vöxt Reykjavíkur og fyrsta úthverfið austan Elliðaáa. Gönguferðin hefst við Árbæjarsafn við Kistuhyl kl. 14:00 og er hún farin í samvinnu við Minjasafn Reykjavíkur – Árbæjarsafn.
Tjörnin – 5. gönguferð HÍ og FÍ
Hinn 7. apríl leiðir Gísli Már Gíslason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, göngu um miðbæ Reykjavíkur þar sem Tjörnin verður í forgrunni og lífríki hennar. Lagt er af stað frá Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, við Sturlugötu kl. 17:00.
Jarðfræði Reykjavíkur – 6. gönguferð HÍ og FÍ
Hinn 10. apríl verður jarðfræði Reykjavíkur skoðuð í fylgd jarðvísindamanna Háskóla Íslands. Lagt verður af stað í „jarðfræðistrætó“ frá Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, við Sturlugötu kl. 10. Ferðin endar þar sem hún hófst, við Öskju kl. 13.
Fjaran – gósenland – 7. gönguferð HÍ og FÍ
Hinn 14. maí leiðir Guðrún Hallgrímsdóttir, verkfræðingur og fulltrúi í háskólaráði Háskóla Íslands, göngu um fjörur á Álftanesi. Hugað verður að fjörunytjum og rifjuð upp þýðing þangs, fjörudýra og fjörugróðurs í fæðunni.
Jafnframt verður litið eftir komu farfugla og margæsin sérstaklega boðin velkomin. Ferðin hefst við Bessastaðakirkju kl. 14:00, þaðan verður farið í nokkrar fjörur og ekið verður á milli þeirra.
Goð og garpar í fornum heimildum – 8. gönguferð HÍ og FÍ
Hinn 28. maí gengur Guðrún Kvaran, prófessor og sviðsstjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, um Þingholtin og rifjar upp sögur úr norrænni goðafræði.
Fjallað verður um nöfn goðanna og vinsældir þeirra í nafngjöfum síðari tíma. Þá verður haldið lengra austur og rætt um forna kappa úr Íslendingasögum og Landnámu og nöfn þeirra og notkun í samtímanum. Gangan hefst kl. 14:00 á malarbílastæði Háskóla Íslands fyrir neðan Aðalbyggingu og lýkur á sama stað og lagt var upp frá.
Plöntuskoðunarferð – Plöntur eru augnayndi en hvað leynist undir yfirborðinu? –9. gönguferð HÍ og FÍ
Hinn 23. júní leiðir Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, plöntuskoðunarferð á Esjuna upp með Mógilsá. Markmiðið er að skyggnast inn í ósýnilegan heim plöntuefnasambanda, undraheim sem gefur okkur virk efni til að nota í lyf.
Útskýrt verður hvaða kraftaverk, sem við ekki sjáum, gerast í plöntunum á hverjum degi. Gangan hefst við bílastæðið við rætur Esjunnar kl. 17:00.
Skólaganga – 10. gönguferð HÍ og FÍ
Hinn 10. september leiðir Helgi Skúli Kjartansson, prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands, göngu um slóðir menntunar og fræðslu í höfuðborginni. Gönguferðin hefst kl. 14:00 við gatnamót Pósthússtrætis og Hafnarstrætis þar sem Barnaskóli Reykjavíkur var áður til húsa.
Hvers virði er náttúran? – 11. gönguferð HÍ og FÍ
Hinn 29. október gengur Daði Már Kristófersson, dósent í náttúruauðlindahagfræði við Hagfræðideild Háskóla Íslands, um Heiðmörkina og talar um verðmæti náttúrunnar. Gangan hefst við Elliðavatnsbæinn kl. 14:00.
Tukthúsmeistarinn, strípibúllur og fyrsti dómsalurinn – 12. gönguferð HÍ og FÍ
Hinn 12. nóvember verður gengið með Helga Gunnlaugssyni, prófessor við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, um miðbæ Reykjavíkur. Gangan hefst kl. 14:00 við Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu, sem einu sinni var notað sem fangageymsla.
Gengið verður framhjá sögufrægum öldurhúsum og endað í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg þar sem fyrsti dómsalurinn var til húsa. Það sem fyrir augu ber á hverjum stað verður kynnt stuttlega.