Ferðafélag Íslands stofnar FÍ UNG, ferðafélag unga fólksins

FÍ UNG hefur það markmið að hvetja ungt fólk á aldrinum 18 - 25 ára að ferðast um og kynnast landinu, vera úti í náttúrunni í góðum og skemmtilegum félagsskap.

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands segir að FÍ UNG sé stofnað að norskri fyrirmynd en DNT UNG, dótturfélag norkska ferðafélagsins er í dag orðið annað stærsta útivistarfélagið í Noregi og hefur fengið frábærar viðtökur ungs fólks. ,,Við fórum af stað með Ferðafélag barnanna fyrir 6 árum og þetta er rökrétt framhald af þeirri viðleitni okkar að ná til ungs fólks," segir Páll.

Stofnganga FÍ UNG verður nk. fimmtudag þegar gengið verður á Úlfarsfell kl. 19 frá bílastæði Skógræktarinnar við Vesturlandsveg.

Ingó veðurguð tekur á móti göngufóki á tindi Úlfarsfells og tekur nokkra hressa slagara.

FÍ UNG mun meðal annars standa fyrir fræðslu og námskeiðum á sérstökum helgarnámskeiðum í fjallaskálum FÍ þar sem farið verður yfir helstu atriði í fjallamennsku, bæði grunnatriði eins og t.d. góðan undirbúning, hvað á vera í bakpokanum, hvernig á að raða í bakpokann, hvernig á að tjalda og almennt umgangast nátttúruna og eins farið betur yfir t.d. búnað, rötun og öryggisreglur.