Ferðafélag Íslands styður hugmyndir um þjóðgarð á hálendi Íslands

HÁLENDI ÍSLANDS – ÞJÓÐGARÐUR

Friðlýsing hálendis Íslands

Stjórn Ferðafélags Íslands styður að hálendi Íslands verði friðlýst og gert að þjóðgarði. Markmiðið með friðlýsingu hálendis Íslands og helstu áhrifasvæða þess sem þjóðgarðs er að vernda náttúru hálendisins, s.s. landslag, lífríki og jarðmyndanir, og menningarminjar þess. Auk þess að gefa almenningi kost á að kynnast og njótanáttúru svæðisins, menningar þess og sögu. Í þjóðgarðinum skal veita fræðslu um náttúru og náttúruvernd, sögu, mannlíf og menningarminjar svæðisins og stuðla að rannsóknum til að efla þekkingu á þessum þáttum. Þessi landnýting er til þess falinn að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins og skal um leið vera sjálfbær.

Víðtækt samráð

Við undirbúning og stofnun þjóðgarðsins skal hafa víðtækt samráð og samvinnu við alla hagsmunaaðila, þ.e. ferða- og útivistarfélög, náttúruverndarfélög, aðila í ferðaþjónustu, landeigendur, bændur, ríki og sveitarfélög ofl.

Verndaráætlun

Verndaráætlun skal unnin fyrir þjóðgarð á hálendi Íslands. Þar skal gerð grein fyrir markmiðum verndar á einstökum svæðum innan þjóðgarðsins, einstökum verndaraðgerðum, landnýtingu og mannvirkjagerð, vegum, reiðstígum, göngubrúm og helstu gönguleiðum, umferðarrétti almennings, aðgengi ferðamanna að svæðinu og veiðum. Innan þjóðgarðsins er óheimilt að valda spjöllum eða raski á náttúrunni, s.s. á lífríki, jarðmyndunum eða landslagi, menningarminjum og mannvirkjum.

Hefðbundin landnýting

Hefðbundin landnýting, svo sem búfjárbeit, fuglaveiði, hreindýraveiði og veiði í ám og vötnum, er rétthöfum heimil á þeim svæðum sem eru sérstaklega afmörkuð. Landnýting innan þjóðgarðsins skal vera sjálfbær.

Reykjavík, mars 2016
Stjórn Ferðafélags Íslands