Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í sumar hefur Ferðafélag Íslands fest kaup á Húsadal, skálasvæði í Þórsmörk og tekur við rekstri svæðisins frá og með næstu áramótum.
Öll aðstaða og þjónusta sem verið hefur í Húsadal verður áfram í boði og markmið félagsins er að styrkja enn frekar bæði aðstöðu og þjónustu á svæðinu. Sú uppbygging mun hefjast þegar næsta vor.
Um leið og félagið stefnir að því að styrkja og bæta aðstöðu og þjónustu í Húsadal er markmið félagsins jafnframt að styrkja Húsadal og Langadal og Þórsmörk alla sem útivistarsvæði. Meðal annars með því að bæta göngustígakerfi Þórsmerkur með lagfæringum og endurnýjun á stígum, stikunum og merkingum sem og bjóða upp á gönguferðir með leiðsögn. Þá verður unnið að því að auka dægradvöl og afþreyingu á svæðinu sem falla undir útivist, fjallamennsku og náttúruupplifun.
Farfuglar sem hafa rekið þjónustu í Húsadal undanfarin þrjú ár hætta starfsemi sinni í Húsadal 1. október.
Samgöngur í Húsadal verða með sama hætti og verið hefur. Jafnframt er unnið er því að göngubrú yfir Markárfljót verði að veruleika á allra næstu misserum.
Bókanir í Húsadal fyrir 2012 eru á skrifstofu Ferðafélags Íslands á netfangið fi@fi.is eða í síma 568 2533.
Með góðri kveðju,
Páll Guðmundsson
Framkvæmdastjóri FÍ