Grænlenskt samfélag er fjarri því að vera einsleitt. Þeir sem reikna með því að í höfuðstaðnum Nuuk sé að finna frumstætt samfélag á mælikvarða vestrænna manna verða undrandi. Nuuk er nefnilega þróaður bær sem gæti verið hvar sem er í heiminum. Þar er verslunarmiðstöð og veitingastaðir og verslanir eru á hverju strái. Íbúar í Nuuk eru um 17 þúsund og bærinn sá langstærsti á Grænlandi. Andstæðurnar er að finna á austurströndinni og á norður Grænlandi þar sem gamla Grænland er enn til staðar og lífið gengur út á veiðar og baráttu við náttúruna.
Nútíminn er mættur til Nuuk með öllu tilheyrandi á meðan gamlar hefðir og lífsstíll heldur velli í litlu bæjunum austanvert. Merkilegt er líka að á Austur-Grænlandi tala menn annað tungumál en í höfuðstaðnum. Þriðja afbrigðið af tungumálinu er að finna á norðvestur Grænlandi. Grænlendingar í Nuuk eiga erfitt með að skilja þá sem búa á Ammassalik-svæðinu. Skýringin liggur í því að Grænlendingar austan og vestan voru um aldir algjörlega aðskildir. Himinn og jökull er á milli Nuuk og Kulusuk.
Aðeins eru rúm 130 ár síðan sá danski landkönnuður, Gustav Holm, fann 400 manna samfélag á þessu svæði sem var algjörlega einangrað frá öllum öðrum. Eskimóarnir lifðu alfarið af veiðum og bjuggu í snjóhúsum og tjöldum án nokkurra samskipta við umheiminn. Grænland er ógnarstórt land með um 20.000 kílómetra strandlengju. Það er til dæmis um fjarlægðir innanlands að jafnlangt er frá Kulusuk til Nuuk og Reykjavíkur. En ógnarlöng strandlengjan er andstæðan við þjóðvegina sem eru örstuttir og tengja ekki saman byggðarlög. Þjóðvegur Grænlendinga liggja um höf og himinn með flugi og skipum.
Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað í Nuuk undanfarna áratugi á meðan tíminn stendur í stað austurströndinni. Í Nuuk ríkir sannkallað góðæri hjá flestum. Byggingakranar, einkenni góðærtisins, teygja sig til himins og nýtískulegar blokkirnar spretta upp í öllum regnbogans litum. Stöðugt þarf að sprengja til að raða niður mannvirkjunum. Það góða er að undirstöðurnar eru traustar. Ekkert er byggt á sandi. Aðstæður sem einkennast af takmörkuðu undirlendi og grjóthörðum klöppum ráða því að mest er byggt upp á við. Þannig hefur risið fjöldi fjölbýlishúsa undanfarin mörg ár. Um aldamót voru örfá fjölbýlishúis í Nuuk en nú hefur orðið sprenging. Þetta er auðvitað stílbrot ef litið er til gömlu, litríku, timburhúsanna sem einkennt hafa grænlenskar byggðir. En nútíminn er mættur í Nuuk þótt sumum finnist nóg um og finnist hann vera trunta. Grænland glímir víða við mikil félagsleg vandamál. Sumir kenna Dönum um að hafa eyðilagt samfélagið með því að ýta íbúunum frá veiðum og yfir í að vera styrkþegar sem fá útborgaðar bætur mánaðarlega og hafa horfið frá því lifibrauði sem hafið og ísinn gefur í að lifa á plastpakkaðri skinku, snakki og beikoni sem flutt er inn frá Danmörku.
Styrkjakerfið og tilgangsleysið hefur leitt af sér óreglu með þeim harmleikjum sem fylgja. Sjálfsvíg hafa verið algeng í mörgum veiðimannasamfélögunum. Nuuk er þó með öðrum brag. Íbúarnir þar stunda útivist svo sem hjólreiðar, hlaup, göngur og skíði. Vakning er fyrir heilsurækt samhliða velmeguninni. Fjölsótt skíðasvæði er í bænum, rétt við flugvöllinn. Lyftur teygja sig upp á Lille Malene sem líkja má við Úlfarsfellið íslenska í hæð og erfiðleikastigi. Skammt frá er Store Malene sem er öllu hærra. Skammt frá flugvellinum endar vegurinn á svæði sem ætlað er til geymslu á sprengiefni. Milli flugvallar og sprengjusvæðis er síðan spánýtt fangelsi sem sökum glæsileika minnir á fjögurra stjörnu hótel, fremur en betrunarhús.
Ferðafélag Íslands lagðist á árar með heimamönnum til að stofna Ferðafélag Grænlands og efla þannig enn frekar útivist og hreyfingu. Grænlenska ferðafélagið leit dagsins ljós þann 9 maí þegar sendinefnd frá Íslandi á vegum Ferðafélags Íslands heimsótti Nuuk og veitti ráðgjöf við stofnun félagsins. Segja má að þetta sé endurtekning þess sem gerðist þegar Ferðafélag Íslands var stofnað fyrir rúmlega 90 árum. Þá var norska ferðafélagið bakhjarl og hefur allar götur síðan verið í nánu samstarfi með því íslenska. Grænlenska Ferðafélagið byggir á sömu hugmyndafræði og það íslenska. Eitt stærsta málið er lýðheilsuátak þar sem fólki er hjálpað til að bjarga sér frá þeim háska nútímans sem felst í ofáti og hreyfingarleysi. Í þeim skilning er gjarnan bent á að takist að forða einum einstaklingi frá alvarlegu hjartaáfalli sparist nær 100 milljónir króna. Ferðafélag Íslands hefur leitt þúsundir manna í gegnum slík átök á fjöllum á þeim árum sem liðið hafa síðan Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri fékk þá hugmynd að stofna hóp sem gengi á eitt fjall á viku, allt árið um kring og hafa í framhaldi af því verkefnið orðið til fjölmörg önnur fjalla- og gönguverkefni. Annar stór þáttur í rekstri Ferðafélags Íslands er uppbygging á fjallaskálum og merking gönguleiða. Laugavegurinn er lýsandi dæmi um það starf. Ferðafélag Íslands hefur í mörg ár verið með traustan rekstur og fjárhag. Það er rekið með þeim augum að safna ekki í sjóði en veita fjármunum til uppbyggilegra mála til þess að fræða landsmenn og efla heilsu þeirra. Grænlendingar hafa tekið hugmyndinni fagnandi. Stjórn móðurfélagsins í Nuuk hefur þegar verið kosin. Næstu árin verða væntanlega stofnaðar deildir víða um land og stefnt að uppbyggingu skála og gönguleiða í þessu landi ævintýranna. Þá verða stofnaðir gönguhópar þar sem grundvöllur er til þess.
Stofnfundur Ferðafélags Grænlands var haldinn í hlíðum fjallsins Kuanninnquit, skammt austan við Nuuk. Þar var settur niður póstkassi og varða sem Ferðafélag Íslands færði hinu nýja félagi að gjöf. Stefán Hrafn Magnússon hreindýrabóndi smíðaði staur sem notaður var til að festa kassann. Fólk skiptist á að bera gripinn um fjóra kílómetra á áfangastað. Leiðtogi hins nýja félags, Inga Dóra G. Markussen dró ekki af sér og bar staurinn fyrsta áfangann: Þorbjörn Jónsson, aðalræðismaður í Nuuk, tók sinn hluta af leiðinni með byrðarnar eins og margir aðrir. 39 manns og þrír hundar mættu í gönguna. Stefán hreindýrabóndi boraði í grjótharða klöppinna ásamt Miiti Geisler, kaupsýslukonu í Nuuk. Ef grófum hlutfallsreikningi er brugðið á fjöldann í göngunni þyrftu 350 íbúar höfuðborgarsvæðisins á Íslandi að mæta í göngu til að jafna þennan fjölda.
Ferðafélag Íslands mun verða hinu nýja félagi til halds og trausts, á meðan félagið er að eflast og strykjast. Grænlenskt samfélag mun á næstu árum taka við fleiri ferðamönnum en áður hafa sést. Ástæðan er sú að í Qaqortoq á Suður-Grænlandi á að byggja flugvöll sem getur tekið við stórum þotum. Þá stendur til að stækka flugvöllinn í Nuuk svo hann geti tekið við stærri þotum. Þá opnast stór tækifæri út í umheiminn og ferðamannafjöldi stóreykst. Þá er áríðandi að hafa innviðina í lagi. Þar mun Ferðafélag Grænlands kom sterkt inn.
Reynir Traustason
Höfundur er verkefnastjóri og tengiliður Ferðafélags Íslands við Ferðafélag Grænlands.