Ferðafélag unga fólksins af stað

Ferðafélag unga fólksins, FÍ Ung, hefur það meginmarkmið að hvetja ungt fólk á aldrinum 18-25 ára til að ferðast um og kynnast Íslandi og vera úti í náttúrunni í góðum og skemmtilegum félagsskap.

FÍ Ung var stofnað árið 2015 og er fyrst og fremst hugsað fyrir aldurinn 18-25 ára. Tilgangurinn með stofnun félagsins var að hvetja ungt fólk til vera úti í náttúru landsins og læra að þekkja landið og ferðast um það á öruggan hátt.

Félagið er mjög hentugt fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjallamennsku og er líka frábært tækifæri til að hitta aðra á svipuðum aldri með svipuð áhugamál.

FÍ Ung býður upp á fjölbreytta dagskrá af stuttum dagsferðum á vorin og á sumrin er farið í nokkrar lengri ferðir.

John Snorri

Umsjónarmaður FÍ Ung er John Snorri Sigurjónsson. „Mitt markmið er að allir sem vilja eigi að komast með og taki með sér góða skapið. Það er mikilvægt að njóta og fræðast og vera klæddur eftir veðri. Svo þarf maður auðvitað að taka með sér nesti og það er allt í lagi að gera það líka í styttri ferðunum,“ segir John Snorri Sigurjónsson, sem leiðir allar ferðir Ferðafélags unga fólksins fyrir hönd Ferðafélagsins.

John Snorri vann eitt mesta afrek sem íslenskur fjallgöngumaður hefur unnið þegar hann gekk á eitt hættulegasta og erfiðasta fjall í heimi K2 sem er annað hæsta fjall heims.  Í sama leiðangri gekk annað einnig á Lhotse og Broad Peak sem eru á meðal hæstu fjalla heims

Ferðafélag unga fólksins býður upp á spennandi ferðir þetta árið sem endranær og er fyrsta gangan á Helgafell 2. febrúar n.k. undir dyggri leiðsögn Freysteins Sigmundssona vísindamanns í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.  Það er mikill fengur að fá Freystein með okkur í þessa ferð en hann er einn virtasti vísindamaður heims á sviði jarðvísinda og eldsumbrota.

Hér má sjá spennandi dagskrá Ferðafélags unga fólksins

Helgafell
2. febrúar, laugardagur
Brottför: Kl. 10 frá Kaldárseli fyrir ofan Hafnarfjörð.
Hefðbundin leið gengin úr Kaldárbotnum og upp á Helgafell. Þægileg 2-3 klst. ganga.
Þátttaka ókeypis fyrir félagsmenn.

Keilir
23. febrúar, laugardagur
Brottför: Kl. 10 frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6, þar sem sameinast er í bíla.
Keilir er 379 metrar yfir sjó. Keilir er móbergsfjall á Reykjanesskaga skammt frá Reykjavík með miklu og fallegu útsýni. Gangan að fjallinu er í gegnum fallegt hraunlag og er hækkunin um 200 metrar. Heildar göngutími er um 2-3 tímar og fyrir alla.
Þátttaka ókeypis fyrir félagsmenn.

Akrafjall
9. mars, laugardagur
Brottför: Kl. 9 frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6, þar sem sameinast er í bíla.
Eins og nafnið gefur til kynna er Akrafjall skammt frá Akranesi. Keyrt að bílastæði undir fjallinu og gengið upp á Háahnúk sem býður upp á frábært útsýni yfir höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa og Hvalfjörðinn. Áætlaður göngutími er 2-3 klst og gangan er ekki mjög krefjandi.
Þátttaka ókeypis fyrir félagsmenn.

Óvissuhellaferð
30. mars, laugardagur
Brottför: Kl. 10 frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6, þar sem sameinast er í bíla.
Þátttakendur þurfa að hafa með sér sundföt, hjálma og höfuðljós/vasaljós.
Þátttaka ókeypis fyrir félagsmenn.

Glymur
13. apríl, laugardagur.
Brottför: Kl. 9 frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6, þar sem sameinast er í bíla.
Glymur er hæsti foss landsins og er staðsettur í Botnsdal innst í Hvalfirði. Glymur er 196 metra hár og fellur niður í þröngt gil.
Gangan tekur um 2-3 klst. Gott ef þið takið með ykkur vaðskó/strigaskó.
Þátttaka ókeypis fyrir félagsmenn.

Hvannadalshnúkur
8. Júní, laugardagur
Brottför: Hvítasunnuferð á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnúk, 2110 m. Gengin er Sandfellsleið um Sandfellsheiði.
Mikil áskorun og löng ganga, 12-15 klst., og hækkun um 2000 m.
Jöklabúnaður er nauðsynlegur. Gisting á eigin vegum.
Samráð verður haft við yfirvöld og almannavarnir og ferðin ekki farin ef hættuástand er yfirvofandi.
Undirbúningsfundur: Mánudaginn 29. apríl kl. 20, í risi FÍ, Mörkinni 6.

Langisjór, Sveinstindur
20-21 Júlí, laugardagur-Sunnudags.
Brottför kl. 07:00 frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6, þar sem sameinast er í bíla eða rútu.
Sveinstindur er 1.090 metra hár og einn flottasti útsýnisstaður sem veið eigum. Sannkölluð perla náttúrunnar.  Gangan upp tindinn tekur um 1-1.5 klst. Það þarf að skrá sig í þessa ferð því við ætlum að reyna gista í tjöldum við Skælingar. Einnig í boði að fara þessa ferð á einum deigi, en þá er lagt af stað kl. 06:00 og komið heim um kl. 20:00. Fer eftir þátttöku og áhuga. En þessi tindur er eitthvað sem allir þurfa upplifa.
Þátttaka ókeypis fyrir félagsmenn.

Fimmvörðuháls
24-25 Ágúst, laugardagur-Sunnudags.
Brottför: Kl. 7 með rútu frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6.
Ekið að Skógum undir Eyjafjöllum og gengið upp á Fimmvörðuháls eftir hinni hefðbundnu gönguleið með viðkomu í Baldvinsskála. Gengið að Magna og Móða og ummerki eldgossins frá 2010 skoðuð.  Rúta bíður við Strákagil og flytur göngumenn í Langadal þar sem gist er í Skagfjörðsskála. Sameiginleg grillveisla og kvöldvaka. Morgunganga á sunnudegi og haldið til Reykjavíkur um hádegi.

Þórsmörk
6-7 september, föstudagur-laugardags.
Brottför kl. 15:00 með rútu frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6.
Ekið er í Langadal þar sem við gistum í skála. Förum á brennu/kvöldvöku í Básum um kvöldið. Á sunnudags morguninn göngum við upp Valahnúk þar sem stórkostleg náttúra Þórsmerkur og nær sveita skartar sýnu fegursta. Þaðan göngum við í Húsadal og yfir í Langadal. Lagt af stað heim um kl. 14:00

Móskarðshnjúkar
12. Oktober, laugardagur.
Brottför: Kl. 10 frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6, þar sem sameinast er í bíla.
Göngutími er um 3-4 klst.
Móskarðshnjúkar eru 807metrum yfir sjávarmáli, einungis 20 mín frá Reykjavík. Góðir göngustígar og fallegt landslag einkennir þessa leið. Ferð sem vert er að koma með í.
Þátttaka ókeypis fyrir félagsmenn.

Sjá nánar um FÍ ung og ganga í félagið