Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands, hefur leitt félagið á miklum breytingatímum. Hann segir sterkar rætur og frjóa sprota vera lykilinn að farsæld félagsins.
Ólafur er alinn upp á Laugarvatni og hefur stundað útivist frá blautu barnsbeini. Foreldrar hans, doktor Haraldur Matthíasson, kennari, og Kristín Sigríður Ólafsdóttir, húsfreyja og kennari, voru bæði virk í starfi Ferðafélags Íslands og lögðu mikið af mörkum í fararstjórn og til útgáfustarfs og annarra þátta í starfsemi félagsins. Á heimilinu snerist gjarnan allt um ferðalög og allt þeim tengt. Ólafur Örn fékk þann lífsstíl sem snýst um útivist, ferðalög og göngur með móðurmjólkinni,
„Þau voru mikið ferðafólk og Ferðafélagsfólk. Faðir minn skrifaði fimm árbækur Ferðafélags Íslands og sögu félagsins á 50 ára afmæli þess. Þá var móðir mín honum ávallt til aðstoðar. Það var allt gert í sjálfboðavinnu, eins og tíðkaðist hjá mörgum í þá daga. Ferðafélagið var bókstaflega fléttað inn í heimilislífið hjá okkur. Á veturna voru bækurnar skrifaðar. Þá sat faðir minn inni í bókaherbergi og skrifaði á ritvél. Svo kom þögn og hann kom fram í eldhús og las fyrir móður mína. Hún lagði svo eitthvað til á sama tíma og hún hrærði í pottunum. Svo var legið yfir kortum og hugmyndum um það hvert ætti að fara næsta sumar. Þau tóku mig og systkini mín gjarnan með í þessar ferðir. Stundum kom málning, sem foreldrar mínir höfðu pantað, með rútunni að Laugarvatni. Þá var sest upp í jeppann og brennt inn í Hvítárnes, í Þjófadali, að Hagavatni eða eitthvað annað til að mála skála Ferðafélagsins. Þetta var allt gert í sjálfboðavinnu.“
Haraldur og Kristín Sigríður þóttu vera einstaklega samrýmd. Þau voru á meðal frumherja í gönguferðum um hálendi landsins og vörðu mestum sínum frítíma úti í náttúrunni og þá gjarnan á fjöllum. Þau eignuðust fjögur börn á jafnmörgum árum. Jóhanna er elst. Ólafur er næstur í röðinni. Sá þriðji var Matthías sem er látinn. Yngst er Þrúður Guðrún. Börnin fylgdu í fótspor foreldra sinna. Þegar barnsskónum var slitið hélt Ólafur áfram að stunda útivist og göngur. Tólf ára fór hann í fyrstu útilegurnar í hjólaferð með vinum sínum.
„Þessi þáttur í uppeldi mínu varð til þess að ég fór að ferðast með vinum mínum. Við fórum í langar ferðir á reiðhjólum með tjald, prímus og annan viðlegubúnað. Við fórum gjarnan um Suðurland og skiluðum okkur jafnan heilir heim. Seinna eignuðumst við Matthías, bróðir minn, skellinöðrur og þá gátum við farið víðar. Við fórum þá gjarnan norður í land eða á Snæfellsnes, suður Kjöl og hvert annað sem okkur datt í hug.“
Ferðalög hafa verið líf og yndi Ólafs. Sá lífsmáti sem foreldrar hans höfðu innrætt börnum sínum fylgdi honum eftir það.
„Þegar ég var kominn með aldur til eignaðist ég mótorhjól. Þá lá leiðin af landi brott. Sumarið 1966 ferðaðist ég einn um Evrópu sem var ekki algengt í þá daga. Ég fór um Þýskaland, Ítalíu, norður England og til Skotlands. Um haustið kom ég svo heim með Gullfossi. Ég varð mjög fljótt sjálfbjarga.“
Ólafur þekkir alla þætti í rekstri Ferðafélags Íslands. Hann hefur farið í fjölda ferða sem fararstjóri undir fána félagsins og ungur var hann skálavörður. „Þegar ég var 19 og 20 ára var ég skálavörður í Hvítárnesi. Þangað brunaði ég á mótorhjólinu mínu. Í þá daga var mun fámennara á þessum slóðum en gerist nú og fáir á ferð. Stundum var ég dögum saman einn í skálanum og undi mér vel,“ segir Ólafur. Sögum fer af draugagangi í Hvítárnesskálanum. Ólafur hlær við spurningunni og segist hafa verið óhræddur einn á reginfjöllum.
Ferðirnar um Ísland urðu til þess að Ólafur lærði að meta íslenska náttúru og þau verðmæti sem liggja í ósnortnum og lítt snortnum víðernum. Synir Ólafs og eiginkonu hans, Sigrúnar Richter, þeir Haraldur, Örvar og Haukur, ólust upp við sama lífsmáta og urðu allir öflugir útivistar- og fjallamenn. „Það besta og hollasta sem maður getur gert fyrir börnin sín er að draga þau út úr skarkalanum og fara með þau út í náttúruna,“ sagði Ólafur sem fylgdi fordæmi foreldra sinna og innrætti sonum sínum dásemdir þess lífsmáta að ferðast um náttúruna.
Ólafur starfar sem þjóðgarðsvörður á Þingvöllum en á að baki farsælan feril sem alþingismaður og hefur víða komið við í atvinnulífinu. Um það leyti sem Ólafur sat á þingi varð hann þekktur fyrir afrek sín á sviði fjallamennsku. Hann fór á skíðum yfir Vatnajökul og í framhaldinu þveraði hann Grænlandsjökul ásamt Haraldi Erni, syni sínum, og Ingþóri Bjarnasyni. Seinna gengu þremenningarnir á suðurpólinn án utanaðkomandi aðstoðar.
„Árið 2004 komu forystumenn Ferðafélags Íslands að máli við mig og báðu mig um að taka að mér að forsetaembætti félagsins sem mér þótti mikið vænt um. Ég tók við af Hauki Jóhannessyni jarðfræðingi. Það hafa valist margir góðir menn til forystu í félaginu og ég hef gegnt þessu embætti með þakklæti og stolti og um leið hefur þetta verið einstaklega gefandi og ánægjulegur tími.“
Ólafur segist vera ánægður með þá þróun sem Ferðafélag Íslands hefur gengið í gegnum á undanförnum árum.
„Ferðafélagið er íhaldssamt í eðli sínu og á að vera það og halda í þau verðmæti og grundvallargildi sem félagið er reist á. Það hefur reynst afskaplega farsælt. Ég lít svo á að félagið hafi, eins og svo mörg önnur samtök í þjóðfélaginu, skyldur við samfélagið - að halda í heiðri ákveðin gildi. Ég hef viljað bera Ferðafélagið saman við Landsbjörg og slysavarnafélögin um allt land. Íslendingar vilja eiga svona samtök einstaklinga sem hafa að leiðarljósi festu og ábyrgð en gróðahyggjan er víðs fjarri. Starfið er mikið til á höndum sjálfboðaliða og grunnurinn er hugsjónin og þjónustan en ekki skammtímasjónarmið. Þetta liggur í eðli Ferðafélagsins og þeim arfi sem félagið hefur fengið frá norska ferðafélaginu, alpafélögunum og fleiri samtökum.“
Ólafur víkur að stofnun félagsins sem verður 90 ára seinna á þessu ári og hefur sjaldan staðið betur.
„Í upphafi fundu áhugamenn um fjölþætt efni sér vettvang innan Ferðafélags Íslands. Þarna voru skógrækt, jöklarannsóknir og landgræðsla ofarlega á baugi. Tengslin við náttúrufræðinga voru sterk og félaginu mikilvæg og verðmæt. Félagið var áhrifamikið og átti fulltrúa víða í ráðum og nefndum. Félagið var nánast einu samtökin sem rúmuðu svo breitt svið. Þegar tímar liðu fram skiptist þetta upp og sérsamtök á ýmsum sviðum urðu til. Þar má nefna samtök um skógrækt og önnur svið. Þá þjappaði Ferðafélagið sér utan um sín kjörsvið sem eru ferðalög, skálabyggingar, útgáfustarfsemi og lýðheilsustarf. Árbókin er flaggskip félagsins en auk þess gefum við út smærri rit um áhugaverðar slóðir.“
Ólafur segist hafa gert sér grein fyrir því þegar hann varð forseti að það þyrftu að verða breytingar á félaginu, starfsemi þess, ásýnd og því framboði sem var á þjónustu. Jafnhliða þurfti að gæta að hinum gömlu og góðu gildum.
„Ásýnd félagsins hefur breyst. Við höfum lagt áherslu á að félagið sé nútímalegt og höfði til karla jafnt sem kvenna. Þá viljum við ná til allra aldurshópa og ekki síst til barna og unglinga. Tveir meginþættir, lýðheilsuþátturinn og umhverfismálin, eru ekki síst mikilvægir. Lýðheilsuverkefnið snýst um að fá fólk af stað og ganga í náttúrunni með góðum vinum. Þá eru sérstakar áherslur eins og þær að hjálpa þeim sem glíma við offitu eða sjúkdóma. Þessir tveir þættir fléttast saman. Sá sem hugar að eigin heilsu er líka að hugsa um umhverfið.“
Stóru verkefnin okkar á næstunni felast í því að endurbæta skálana. Þar er stærsta verkefnið Skagfjörðsskáli í Langadal sem þarfnast mikils viðhalds og endurbóta. Þá er ég ekki að tala um lúxusvæðingu heldur að endurbæta þjónustuna á fjölsóttustu stöðunum. Við þurfum að gera skálana myndarlegri og snyrtilegri án þess að hverfa frá þeirri stemmningu sem frá fornu fari fylgir fjallaskálunum.“
Rekstur félagsins er í eðli sínu þungur. Kostnaður við rekstur fjallaskála er t.d. gríðarlega mikill, miklar vegalengdir og afskekktir staðir sem dýrt er að þjónusta. Félagið býður einnig upp á margt í sínu starfi sem er ókeypis í þeim tilgangi að hvetja fólk til að taka fyrstu skrefin. Ólafur segir að sjálfboðaliðastarf hafi í gegnum árin lagt grunninn að starfi félagsins.
„Félagsmenn eiga félagið. Allar tekjur sem koma inn fara í reksturinn og uppbyggingu og viðhald. Það fer ekkert út úr félaginu og því er ekki ætlað að safna auði. Ég legg þó gríðarlega áherslu á það að félagið standi vel fjárhagslega og hafi sterkan eignagrunn. Daglegur og árlegur rekstur má ekki skila tapi. Við höfum verið heppin með forystumenn í félaginu. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri hefur lyft grettistaki og verið allt í öllu. Samstarf okkar hefur verið framúrskarandi gott og er bæði ánægjulegt og árangursríkt. Það líður varla sá dagur að við tölumst ekki við um félagið og verkefni þess, stundum reyndar oft á dag þegar mikið er um að vera. Starfslið félagsins er margreynt og hefur tryggt því farsælan rekstur. Við höldum úti þáttum á borð við Ferðafélag barnanna sem kostar nokkrar milljónir króna en hefur engar tekjur. Félagið verður að hafa burði til að halda slíku starfi úti. Annað dæmi er um skálann á Fimmvörðuhálsi sem kom í stað Baldvinsskála. Það var gert fyrir tugi milljóna og án nokkurrar vonar um að þar kæmu tekjur. Þarna er hættuleg gönguleið þar sem félagið leggur sitt af mörkum til að tryggja öryggi. Félagið þarf að hafa fjárhagslegan styrk til að takast á við þess háttar verkefni. Með traustum fjárhag heldur félagið sjálfstæði sínu og nær að sinna af myndarskap öðru en nauðþurftum. Félagið hefur verið réttum megin við núllið þau ár sem ég hef setið í stjórn. Það er farsælt.“
Miklar og örar breytingar hafa gengið yfir samfélagið á undanförnum árum. Tæknibylting hefur átt sér stað og fyrirtæki og samtök hafa þurft á öllu sínu að halda til að verða ekki undir. Ólafur segir að Ferðafélagið hafi borið gæfu til þess að tileinka sér nýja tækni í samskiptum og mæta kröfum tímans. Hann er bjartsýnn. „Við þurfum að fylgjast grannt með þörfum ferðafólks og breyttum ferðavenjum almennings. Þá þurfum við að eiga góð samskipti við aðra ferðaþjónustuaðila og troða þeim ekki um tær. Við leggjum áherslu á að hafa mörkin skýr og standa ekki í óeðlilegri samkeppni við slíka aðila. Þá þurfum við að standa vörð um okkar hlutverk á hálendinu. Við erum gríðarlega sterkt vörumerki, eitt af þeim sterkari á landinu. Margir hafa sagt að við ættum að nýta þetta vörumerki til að markaðssetja félagið erlendis. Þar höfum við sagt skýrt að það gerum við ekki. Það er hlutverk annarra. Sama gildir um gistinguna. Okkar vettvangur er hálendið, óbyggðirnar og jaðar þeirra svæða. Svona skilgreinum við okkar svæði.“
Ólafur segir að nauðsynlegt sé að Ferðafélag Íslands taki þátt í umræðunni um það hvernig þróun eigi að verða á hálendi landsins. Síðustu ár hafi umhverfið breyst. „Annars vegar er það ferðaþjónustan sem sér mikil tækifæri í ferðum og þjónustu á hálendinu. Síðan finnum við að sveitarfélögin hafa fengið aukinn áhuga á því að byggja upp á hálendinu og á svæðum þar sem við störfum. Þetta er undir því formerki að vernda náttúruna en einnig að hafa hag af þessum svæðum og tekjur. Þá er horft til þess að hafa óbeinan hag af hálendinu með því að ferðamenn, sem koma inn á hálendið, sæki einnig þjónustu inn í sveitarfélögin og þannig verði til atvinna og tekjur. Inn í þetta nýja landslag þarf Ferðafélagið að semja sig, með virðingu fyrir hagsmunum annarra að leiðarljósi, og eiga gott samstarf.“
„Þá hefur okkur tekist að þróa félagið til nútímalegri hátta og bregðast við nýjum ferðavenjum og þörfum. Það hefði verið auðvelt fyrir félagið að stirðna og missa stöðu sína og áhrif. Þá hefur það verið gæfa okkar að hafa sterka framkvæmdastjórn og samkomulag í stjórn hefur verið einstaklega gott. Það eru engar skotgrafir eða leiðindi. Innan stjórnar hafa verið fulltrúar ólíkra sjónarmiða, mikið mannval.“ Ólafur Örn segir að lokum að það séu spennandi tímar framundan hjá félaginu; ,,Það eru stöðugt fleiri sem vilja ferðast um um Ísland og félagið hefur þar stórt hlutverk að kynna landið fyrir ferðamönnum og greiða götu þeirra með uppbyggingu, ferðum og fræðslu.
Greinin birtist fyrst í tímaritinu Ferðafélaginn, 90 ára afmælisriti Ferðafélags Íslands, sem út kom í byrjun júlí, 2017.