Ferðafélagið gefur út tímarit - leit að nafni

Ferðafélagið gefur út tímarit

Ferðafélag Íslands hefur ákveðið að hefja útgáfu tímarits sem dreift verður til allra félagsmanna þeim að kostnaðarlausu. Í tímaritinu sem ætlað er að komi út tvisvar sinnum á ári nánar tiltekið vor og haust verður fjallað um margvíslegt efni sem tengist Ferðafélagi Íslands, starfi þess og viðfangsefnum  sem og ýmsu öðru fróðlegu er tengist útiveru, fjallamennsku og ferðamennsku.

Í tímariti eins og þessu gefst félaginu færi á að miðla fróðleik og þekkingu til félagsmanna sinna með fjölbreyttari og nýstárlegri hætti en hægt með útgáfu árbókar og fræðslurita um afmörkuð svæði. Tímaritið mun segja frá nýjungum á sviði útivistar og ferðalaga, birta ævintýralegar ferðasögur, lýsa nýjum svæðum og gönguleiðum. Það mun og fjalla um starfsemi Ferðafélagsins bæði nýjungum í félagsstarfinu og nýjum ferðum og landvinningum í óbyggðum Íslands sem með réttu má segja að séu starfssvæði Ferðafélagsins.

Einnig gefst færi á í þessu tímariti að varðveita og fjalla um ýmsa atburði úr sögu félagsins sem ekki er vettvangur fyrir í annarri útgáfu. Þetta á við umfjallanir og frásagnir af markverðum atburðum og tímamótum í starfsemi félagsins, viðtölum við þrautreynda ferðamenn og greinar um þá þætti í félagsstarfinu sem almennt er lítið minnst á annars staðar.

Ritstjórn blaðsins hefur lagt línur að stefnu og markmiði blaðsins og gerðar hafa verið áætlanir um að fyrsta tölublað tímaritsins líti dagsins ljós á vordögum 2009. Páll Ásgeir Ásgeirsson  hefur verið ráðinn ritstjóri blaðins og hefur umsjón með efni  í samvinnu við ritstjórn og framkvæmdastjóra Ferðafélagsins.

Enn hefur ekki verið ákveðið hvað tímaritið skuli heita og því leitum við til ykkar ágætu félagsmenn og hvetjum ykkur til þess að senda okkur tillögur að nafni á þessu nýja málgagni Ferðafélags Íslands. Sendið tillögur ykkar á fi@fi.is fyrir 1. apríl n.k. og leggið okkur þannig lið við að gera gott félag betra.