Ferðafélagið kaupir Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi


    Kaupsamningur handsalaður

Ferðafélag Íslands hefur keypt Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi af Flugbjörgunarsveitinni í Skógum.  Samningar þess efnis voru undirritaðir að Skógum fyrir skömmu.  Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélagsins segir ætlunin sé að endurnýja skálann og bæta aðstöðu fyrir göngumenn á Fimmvörðuhálsi.  ,,Ástand skálans er ekki gott í dag. Við ætlum að taka hann í gegn þannig að göngumenn geti haft þar góða aðstöðu, borðað nestið sitt og hvílst sem og þá ætlum við að laga kamaraðstöðuna og huga að vatnsmálum.” Baldvinsskáli er mjög vel staðsettur á Fimmvörðuhálsi og gegnir mikilvægu hlutverki fyrir göngumenn ekki síst út frá öryggissjónarmiðum.  Flugbjörgunarsveitin í Skógum og sérstaklega Baldvin Sigurðsson unnu gríðarlega mikið starf við uppbyggingu skálans á sínum tíma.    Baldvin og félagar hans voru frumkvöðlar í björgunarmálum Austur-Eyfellinga og reistu skálann sem skjól fyrir ferðamenn á þessum óblíðu slóðum en Fimmvörðuháls getur verið eitt mesta veðravíti á landinu þegar þannig stendur á. Flugbjörgunarsveitin stóð einnig fyrir því að lagður yrði vegur inn á Fimmvörðuháls. Baldvinsskáli er nefndur eftir Baldvini sem í marga áratugi vann þróttmikið og gott starf fyrir flugbjörgunarsveitina undir Austur-Eyjafjöllum. Skálinn var reistur árið 1974 og er 42 m2 að stærð, en á síðustu árum hefur skálinn látið nokkuð á sjá undan veðri og óblíðum náttúruöflum sem berja stöðugt á honum og eins er umgengni sumra ferðamanna lítt til fyrirmyndar.  Efst á Fimmvörðuhálsi er Fimmvörðuskáli sem Útivist rekur og segir  Páll Guðmundsson að Ferðafélagið hafi sett sig í sambandi við Útivist og gert þeim grein fyrir áformum FÍ. ,,Við viljum eiga við þá gott samstarf um þjónustu og  uppbyggingu á þessari vinsælu gönguleið.  Það er fín gistiaðstaða í Fimmvörðuskála og við munum hiklaust visa á hana.  Góð aðkoma og bætt aðstaða í Baldvinsskála er hinsvegar mikilvæg öllum ferðamönnum og göngugörpum til aukinnar ánægju á leið þeirra um svæðið,”