Ferðafélag Íslands hefur tekið við rekstri Hornbjargsvita af þeim hjónum Ævari Sigdórssyni og Unu Lilju Eiríksdóttur. FÍ gerir langtímasamning við Siglingastofnun um rekstur og viðhald á húsum á svæðinu og mun um leið reka gistiþjónustu fyrir ferðamenn á staðnum. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að það sé spennandi verkefni að taka við Hornbjargsvita og FÍ vilji halda áfram því mikla og góða uppbyggingarstarfi sem Ævar og Una hafa unnið undanfarin ár.
,,Ferðir á Hornstrandir eru stór hluti af ferðaáætlun FÍ og nú munum við bjóða upp á fleiri ferðir í Hornbjargsvita og skipuleggja ferðir út frá staðnum. Það eru hugmyndir um að bjóða upp á ferðir í Hornbjargsvita með því að sigla frá Ísafirði eða Bolgungarvík í Lónafjörð eða Veiðileysufjörð og ganga þaðan í Hornbjargsvita. Það er nánast alltaf öruggt með lendingu í Lónafirði og Veiðileysufirði og aðeins nokkurra tíma ganga þaðan í Vitann. Þá eru uppi hugmyndir um að gera vitann að bækistöð, þannig að ferðamenn geti fengið mat og búnað á staðnum. Við viljum einnig öryggis ferðamanna á svæðinu lengja viðveru skálavarðar í húsinu, " segir Páll.
Páll segir að FÍ muni vinna að þessu verkefni með hagsmunaaðilum og samstarfsaöilum á svæðinu.
Víst er að fáir staðir á landinu eru eins langt frá þjóðvegakerfinu en það er það sem við setjum sem viðmið er við ræðum um hvað sé afskekkt en með nýrri tækni hafa öll viðmið breyst og þannig hefur Látravík komist í gott samband við vegakerfið, þar á ég auðvitað við sjóleiðina og bátinn Sædísi sem Reimar Vilmundarson gerir út og siglir oft í viku frá Norðurfirði, með viðkomu í Reykjafirði og Bolungarvík á Ströndum
Fyrr á öldum þótti þessi vík ekki álitlegur kostur til ábúðar, og var hún ekki byggð fyrr en 1872, þegar Jóhann Halldórsson bóndi og refaskytta settist þar að.
Jóhann er talinn síðasti landnámsmaðurinn þar sem Látravík er síðasta jörðin sem mæld var úr óskiptum almenningi hér á Íslandi.
Látravík var svo búið allt fram til 1909 en þá fór jörðin í eyði.
Það var svo árið 1930 að Vitamálastofnun keypti jörðina og reisti þar Hornbjargsvita.
Fjöldi manns vann við bygginguna, nokkra þurfti að fá "að sunnan". Við verkið var notuð steypuhrærivél sem var nýlunda á Ströndum á þessum tíma og sennilega sú fyrsta sem þar sást.
Bertel Sigurgeirsson trésmíðameistari stjórnaði verkinu, en hann var faðir Þráins Bertelssonar rithöfundar, einnig stjórnaði hann byggingu Landakotsspítala.
Á meðan verkinu stóð, bjuggu verkamennirnir í skála sem reistur var skammt fyrir austan vitann. Allt efnið í vitann var aðflutt nema grjótið sem var notað í púkk með steypunni til að drýgja hana. Sementið innflutt en allur sandur sóttur á bátum í Hornvík þar sem honum var mokað í strigapoka og borinn um borð í bátinn.
Mest allt efnið í vitann og húsið var híft upp í svokölluðum "Svelg", sem er víkin austan við vitann. Þar var reistur krani sem efnið var híft upp með.
Það er mikil hreyfing í "Svelgnum", þannig að það hlýtur að hafa verið mikið og erfitt verk að hífa allt efnið þarna upp með handafli en þarna eru um 15–20 m háir klettar.
Þaðan hefur svo þurft að aka efninu í hjólbörum eða bera það á bakinu á byggingarstað u.þ.b. 300 metra.
Seinna sáu menn að mun betri lending var fyrir vestan vitann og hófu að nota hana.
Að sögn Haraldar var húsið haft stórt vegna radíóvitans sem átti að vera staðsettur í "Síberíu", en það herbergi hefur verið nýtt sem matargeymsla í fjölmörg ár, enda alltaf kalt þar inni. Haraldur man vinnuna við að fylla upp grunninn undir "Síberíu" en þar er ekki kjallari undir.
Ekki er alveg á hreinu hvort allt húsið var steypt í einu, hlutinn á milli vitans og íbúðarhússins virðist að einhverju leyti hafa verið steyptur síðar, þannig sjást eitt og hálft þrep af útitröppum inni í kústaskáp sem sýnir að gengið hefur verið úr eldhúsi og út, í áttina að vitanum. Lengi vel hélt fólk að vitinn hefði verið byggður fyrst og svo húsið en svo var ekki. Þess vegna er þetta mjög undarlegt.
Hugsanlegt er að fyrst hafi verið gert ráð fyrir aðskildu húsi og vita en síðar á byggingartímanum ákveðið að loka a.m.k. hluta af bilinu á milli húsanna, það skýrir að einhverju leyti útlit hússins en engu er líkara en tveir arkitektar hafi teiknað húsið.
Gaman væri ef einhver sem ætti myndir frá staðnum og vissi fyrir víst hvernig þessu var háttað, hefði samband við undirritaðan. Núna væri allt efni flutt að með þyrlu, þannig að auðvelt er að gera sér í hugarlund þann kostnað sem hlytist af slíkri framkvæmd."
Ef maður röltir upp með læknum eru hvammar og lautir þar sem maður getur gleymt sér við fuglasöng og lækjarnið, gangir þú hinsvegar niður að sjó, blasir Hornbjargið við í öllu sínu veldi, ógnandi við fyrstu kynni, en eftir smá tíma í návist bjargsins fer maður að skilja það, þú lærir að umgangast það af virðingu; í því, og við það, má engin mistök gera.