Ferðafélaginn, 90 ára afmælisrit Ferðafélags Íslands, er komið út

Ferðafélaginn, 90 ára afmælisrit Ferðafélags Íslands.
Ferðafélaginn, 90 ára afmælisrit Ferðafélags Íslands.

Ferðafélaginn, 90 ára afmælisrit Ferðafélags Íslands, er komið út. Sneisafullt af fróðleik, upplýsingum og sögum af kraftmiklum og lífsglöðum félagsmönnum sem eiga án efa eftir að hafa jákvæð og hvetjandi áhrif á lesendur.

Af handahófi má nefna verkfræðinginn Begga sem heldur samviskusamlega bókhald yfir gengna kílómetra og hefur samkvæmt útreikningum gengið langleiðina út í geim. Tvíburana Örvar og Ævar, eða Örævar eins og margir þekkja þá, sem ákváðu í sameiningu að skipta um starfsvettvang um fimmtugt og skella sér í leiðsögunám. Elínborgu sem byrjaði gönguferilinn fyrir tilviljun um sextugt, hefur mætt í allar göngur Fyrsta skrefsins og Næsta skrefsins tvö ár í röð og lætur ekkert stoppa sig á 76. aldursárinu. Og Sigurð sem tók þátt í æfingaverkefninu Landvættir í fyrra, á sama tíma og hann greindist með sjaldgæfan taugarýrnunarsjúkdóm, og stefnir nú ótrauður á að klára Járnmanninn í sumar.

Starfsemi Ferðafélagsins hefur þróast mikið frá stofnun þess. Í Ferðafélaganum er 90 ára sagan rakin á skemmtilegan hátt og gömlum og glæstum sögum af afrekum félagsmanna í gegnum tíðina gerð skil. Þeir hafa margir hverjir unnið margra áratuga óeigingjarnt starf í þágu félagsins og á seinni árum má nefna Ólaf Örn Haraldsson forseta og Sigrúnu Valbergsdóttur varaforseta sem einmitt líta yfir farin veg. Þá fara nokkrir fararstjórar með lesendur í ferðalag um fallegar og áhugaverðar íslenskar slóðir.

Í þessu afmælisriti er einnig fjallað um þær nýjungar sem FÍ hefur bryddað upp á síðastliðin ár. Þar má nefna fjallaverkefni, lýðheilsu- og hreyfiverkefni sem og Ferðafélag barnanna og FÍ ung.

Ferðafélaginn er 120 blaðsíður að lengd og vel á annað hundrað nýrra og gamalla ljósmynda glæða síðurnar lífi. Ritið hefur nú verið sent til félagsmanna og við vonum að allir njóti lestursins.