Ferðaröð FÍ og HÍ á þessu ári lokið

Laugardaginn 12. nóv. var farin síðasta gangan á þessu ári sem verið hefur í samvinnu FÍ og HÍ í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands. Heiti ferðarinnar var Tugthúsmeistarinn, strípibúllur og fyrsti dómsalurinn og leiddi prófessor Helgi Gunnlaugsson hópinn um refilstigu borgarinnar og fræddi okkur um ýmislegt sem tengist þessum málaflokki.

 

Gangan hófst við Stjórnarráð Íslands, sem var byggt um 1770 sem tugthús og rakti Helgi þróun refsilaga og fræddi okkur um sögu hússins. Þaðan var gengið út á Austurvöll og rifjuð upp saga bjórbannsins og strípibúlla borgarinnar.  Þá lá leiðin upp á Skólavörðustíg að gamla Hegningarhúsinnu sem tekið var í notkun 1874. Þar var okkur boðið inn og þáðu það allir þó með þeim orðum að við kæmumst væntanlega út aftur ! Guðmundur Gíslason fangelsisstjóri tók á móti hópnum í gamla bæjarþingssalnum og fræddu þeir Helgi okkur um sögu hússins og þá margvíslegu starfsemi sem verið hefur þar.

 

Göngunni lauk um kl 15:30 og tóku um 120 manns þátt í henni í einstaklega góðu haustveðri.