Ferðasaga - göngugleði 1. apríl

Í sunnanandvara, við hitastig yfir meðaltali var haldið suður með sjó og bílum lagt á bílastæði sunnan vegar á móts við Straumsvík (rétt vestan við verksmiðjuna).  Þar var haldið til suðurs eftir vörðuðum stíg.Við tók mikið og fjölbreytt hraunlandslag, mikið gróið með háum birkihríslum. Jarðföll og hellisskútar, hleðslur og aðrar mannvistarleifar komu óvænt í ljós hér og þar. Í einum bollanum var áð. Þar eins og víðar í þessari gönguferð sást hvergi til byggða. Á einum stað var þverbeygt til vesturs og gengið þar til komið var á hinn forna Straumsselstíg og hann fetaður til baka til bílanna.

Gangan í hrauninu reyndist hin besta alhliða hreyfing og undirbúningur fyrir stærri átök á vordögum, enda voru í hópnum átta væntanlegir Hvannadalshnjúksfarar.

Gangan tók um þrjár og hálfa klukkustund. Göngugarpar voru 21.

  Sigrún Valbergsdóttir