FÍ árbækur á flest heimili Skagafjarðar

Í tilefni af 125 ára afmæli sínu hefur Kaupfélag Skagfirðinga ákveðið að gefa öllum félagsmönnum sínum, ríflega þúsund manns, fallega öskju sem inniheldur þrjár árbækur FÍ um Skagafjörð.

Árbækurnar þrjár eru allar eftir Pál Sigurðsson, prófessor sem sjálfur er frá Sauðárkróki. Fyrsta bókin, sem kom út árið 2012, fjallar um Skagafjörð vestan Vatna og heitir: Frá Skagatá að Jökli. Hinar tvær fjalla um svæðið austan Vatna, önnur kom út árið 2014 og heitir: Frá Jökli að Furðuströndum og hin kom út á þessu ári og heitir: Frá Hjaltadal að Úlfsdölum. Bækurnar telja yfir 700 blaðsíður, með fjölda mynda og eru allar hinar glæsilegustu.

Á dögunum var boðað til samkomu þar sem deildarstjórar Kaupfélagsins tóku formlega við fyrstu eintökum bókanna fyrir hönd félagsmanna Kaupfélagsins. Bókunum er haganlega komið fyrir í viðhafnaröskju sem skartar meðal annars fallegum myndum úr Skagafirði.

img_3889.jpg img_3971.jpg

Á samkomunni sagði höfundur árbókanna, Páll Sigurðsson, í samtali við Feyki, héraðsfréttablað Skagfirðinga, að það væri góð tilhugsun að vita til þess að bækurnar yrðu varðveittar saman á flestum heimilum Skagafjarðar. Hann sagði að það hefði verið gaman að skrifa um sitt heimahérað en alls ekki verið auðvelt.

„Árbókahöfundar er dauðhræddir við að setja vitlaus örnefni inn og þá er við ægilegan þjóðflokk að ræða sem eru heimamenn,“ sagði Páll og bætti við að þeir væru ekki alltaf árennilegir. Slíkt hafi þó ekki komið upp núna.


Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga og Páll Sigurðsson, prófessor

Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, sagðist í samtali við Morgunblaðið þess fullviss að svo glæsilegt ritverk myndi rata víða og hvarvetna verða uppspretta fróðleiks og skemmtunar.

„Þetta eru frábærlega vel skrifaðar bækur og fróðlegar og eru þær gott upplegg og heimildir um Skagafjörð, því töldum við vel við hæfi að færa hverjum félagsmanni þess gjöf þannig að hann ætti á einum stað aðgengilegt yfirlit í þremur bókum um héraðið allt, náttúru þess, sögu og menningu,“ sagði Þórólfur.

img_3857.jpg