Framkvæmdir eru nú hafnar í Álftavatni við byggingu á nýjum skála Ferðafélagsins. Nýi skálinn er um 200 fm og mun taka 40 manns í gistingu. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að húsið verði reist á 5 dögum og síðan taki um 3 vikur að klára húsið að innan.
,,Ferðafélagið er að vinna að því að bæta alla aðstöðu ferðamanna á Laugaveginum. Á síðustu tveimur árum hefur aðstaðan verið bætt í Landmannalaugum og Hrafntinnuskeri og nú í Álftavatni. Eftir að nýi skálinn er kominn í notkun í Álftavatni, í byrjun ágúst, munum við færa eldra húsið þar niður í Botna á Emstrum.
Áform Ferðafélagsins er að uppbyggingu félagsins á Laugaveginum ljúki með nýjum skála í Þórsmörk sem er á 4 ára áætlun.