Kolbrún Björnsdóttir hefur hafið störf sem verkefnastjóri vefmiðla hjá Ferðafélagi Íslands. Hún heldur utan um vef Ferðafélagsins sem og samfélagsmiðla þess.
Kolbrún starfar jafnframt sem framkvæmdastjóri Lífs, styrktarfélags kvennadeildar Landspítala.
Hún starfaði lengi vel í fjölmiðlum, á Rúv, Bylgjunni og Stöð 2 og hefur einnig unnið sem leiðsögumaður bæði hérlendis og á erlendri grundu.
Kolbrún er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og hefur að auki lokið námi í leiðsögn hjá EHÍ. Hún er gift Árna Árnasyni og saman eiga þau fjögur börn.
„Ég gæti ekki verið ánægðari með að vera komin til Ferðafélagsins“ segir Kolbrún. „Ég þreytist seint á því að bera út þann boðskap að íslensk náttúra sé einstök og að hreyfing úti við sé nauðsynleg bæði sál og líkama. Það eru því forréttindi að fá að gera það á vettvangi Ferðafélagsins, þessa öfluga félags með allt þetta fagfólk sem þar er að finna.“