Áhrif reglubundinnar útivistar og gönguferða í endurhæfingu offitusjúklinga
Undanfarna tvo mánuði hefur Rannsóknarstofa í þrótta- og heilsufræðum við Háskóla Íslands í samstarfi við Reykjalund, endurhæfingamiðstöð SÍBS, og Ferðafélag Íslands staðið fyrir rannsókn á áhrifum reglubundinnar útivistar í endurhæfingu offitusjúklinga á Reykjalundi.
Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Ludvig Á. Guðmundsson, yfirlæknir offitu- og næringarsviðs á Reykjalundi, hann ásamt Ann-Helen Odberg, lektor við Íþróttafræðasetur Háskóla Íslands, Smára Stefánssyni, aðjunkt við Íþróttafræðasetur Háskóla Íslands og Gunnari Gunnarssyni, lektor í heilsuþjálfun í Noregi, eru framkvæmdaraðilar rannsóknarinnar.
Faglegir ráðgjafar og samstarfsaðilar eru Hjalti Kristjánsson heilsuþjálfi á Reykjalundi, Dr. Erlingur Jóhannsson prófessor við Íþróttafræðasetur Háskóla Íslands og Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélag Íslands.
Sýnt hefur verið fram á ágæti offitumeðferðar á Reykjalundi, slík meðferð skilar sér í bættri heilsu og lífsgæðum þeirra sem fara í gegnum hana. Mikilvægt er að finna leið til þess að sem flestir sem útskrifast úr offitumeðferð nái að viðhalda eða jafnvel bæta þann góða árangur sem náðst hafði í meðferðinni. Til þess að svo geti orðið er nauðsynlegt að þróa leiðir sem skila árangri fyrir sem flesta. Rannsóknir hafa sýnt að hópar sem stunda útivist sem hluta af endurhæfingu, halda hreyfingunni lengur áfram eftir að endurhæfingu lýkur samanborið við aðra hópa.
Frá 1. október hefur Ferðafélag Íslands boðið upp á gönguferðir 2 svar í viku fyrir einstaklinga sem verið hafa í endurhæfingu á Reykjalundi. Gönguverkefnið stendur fram á vordaga. Um er að ræða gönguferðir eftir stígakerfi borgarinnar og í næsta nágrenni. Einu sínni í mánuði er gengið á fell eða fjall í nágrenni Reykjavíkur.
Markmið
Markmið þessarar rannsóknar er að kanna áhrif reglubundinnar útivistar í offitumeðferð á Reykjalundi á reglulega hreyfingu utandyra og áhrif hennar á lífsgæði. Markmiðið er einnig að virkja frjáls félagasamtök til að bjóða upp á sérsniðin tilboð í hreyfingu fyrir fólk í endurhæfingu, með það að markmiði að stuðla að staðbundinni endurhæfingu í heimahéraði.
Aðferð
Framkvæmdar- og fagaðilar rannsóknarinnar munu ásamt Ferðafélagi Íslands skipuleggja og bjóða uppá útivistar- og gönguferðir sem eru sérsniðnar fyrir þátttakendur rannsóknarinnar þeim að kostnaðarlausu. Áætlað er að stærð hópsins verði um 12-16 manns. Skilyrði fyrir þátttöku í rannsókninni er að einstaklingur hafi lokið dagdeildarmeðferð 1 á tímabílinu september – október 2010 og að læknir og heilsuþjálfi hafi metið viðkomandi hæfan m.t.t. heilsufars og að hann hafi sýnt framfarir í göngu í dagdeildarmeðferð 1. Útiveran fer fram tvisvar í viku í sex mánuði og lagt verður upp með að þátttakendur fái bæði jákvæða upplifun af hreyfingu útí náttúrunni og upplifi hvatningu og aukið sjálfsmat við að klára fyrirliggjandi verkefni.Einnig verður lögð áhersla á hópefli, gleði og jákvæðnis. Álagið verður stigvaxandi sem felst meiðal annars í fjölbreyttu undirlagi, aukinni vegalengd og/eða hækkun í landslagi. Í upphafi verður gönguálag u.þ.b. 3-4 km/klst. og hækkun í lágmarki (ekki meiri en 150). Stefnt verður að því að í lok íhlutunar verði gönguhraði u.þ.b. 4-6 km/klst. og hækkun í landslagi um 300-400 m.
Einu sinni í mánuði verður gengið á fell. Stefnt verður að því að lokaferðin verði í almennum hópi frá Ferðafélagi Íslands. Ætlast er til að þátttakendur hittist á bílastæði Ferðafélags Íslands við Mörkina 6, safnið saman í bíla og aki saman að áfangastað, sem er nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Áætlað er að útiveran byrji strax við útskrift úr dagdeildarmeðferð 1 og endi 6 mánuðum seinna, þegar dagdeildarmeðferð 2 byrjar. Útiveran/gönguferðirnar verða á virkum dögum á eftirmiðdeginum, nema fells göngurnar sem verða á laugardegi/sunnudegi.
Til að kanna áhrif útivistarinnar verða niðurstöður úr mælingunum (þol, líkamssamsettning, lífsgæði og trú á eigin getu) sem gerðar eru á Reykjalundi bornar saman við niðurstöður mælinga frá viðmiðunarhópi sem fær ekki tilboð um útivistar- og gönguferðir. Til viðbótar munu þátttakendur svara spurningalista um trú á eigin getu tvisvar sinnum. Þátttakendur verða beðnir um að skrifa stutta dagbók um upplifun sína af útivistinni/gönguferðunum.
Ávinningur
Mikilvægi þessarar rannsóknar er ótvírætt, með henni skapast möguleiki til áframhaldandi árangurs, innan offitumeðferðar. Þátttakendum gefst tækifæri til að kynnast og stunda útivist undir leiðsögn reynds leiðsögumanns frá Ferðafélagi Íslands og þannig fjölga þeim möguleikum sem viðkomandi hefur til hreyfingar. Lögð verður áhersla á jákvæða upplifun og félagslega eflingu hópsins.
Nánari upplýsingar veita:
Ludvig Á. Guðmundsson, yfirlæknir offitu- og næringarsviðs RL
Sími: 585-2000 netfang: ludvigg@reykjalundur.is
Ann-Helen Odberg, lektor við íþróttafræðasetur HÍ 8664896
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, 895-4510