Búið er að loka fyrir skráningar í æfingahópinn FÍ Landvætti og því miður komust færri að en vildu.
Kynningarfundur fyrir verkefnið var haldinn síðastliðið miðvikudagskvöld og strax að honum loknum var opnað fyrir rafræna skráningu inn í hópinn. Skemmst er frá því að segja að hópurinn fylltist á hálftíma og langur biðlisti myndaðist.
Ekki þótti annað fært en að stækka hópinn og taka þá fyrstu á biðlistanum inn, enda voru nokkur dæmi þess að annar makinn hafði náð að skrá sig en hinn ekki, vinahópar höfðu sundrast og fólk sem hafði hreinlega gleymt símanum sínum eða veskinu, uppgötvaði þegar heim var komið að allt var orðið fullt.
Að höfðu samráði við keppnishaldara Landvættaþrautanna var því ákveðið að fjölga í hópnum úr 50 og upp í 80 manns.
Fyrsta æfing FÍ Landvætta var svo haldin í Öskjuhlíðinni í blíðskaparveðri þar sem hópurinn hljóp saman 5 km hring. Æfingin endaði í sjóbaði og að lokum yljaði fólk sér í pottinum í Nauthólsvíkinni.