Landmannalaugar og svæðið um kring er einn stór ævintýraheimur og heimsókn á þetta svæði í vetrarham er sérstök upplifun. FÍ Landvættir er æfingaverkefni sem stendur í rúma 10 mánuði, frá nóvember og fram í ágúst og hefur það takmark að ljúka öllum fjórum þrautum Landvættanna innan ársins. Nú um helgina gekk hátt í 100manna hópur á vegum FÍ Landvætta inn í Landmannalaugar á gönguskíðum. Gist var í skála FÍ í Landmannalaugum og þeir allra hörðustu gistu í tjaldi.
Einstök upplifun
Það er óhætt að segja að sé einstakt að koma inn í Landmannalaugar á þessum árstíma og upplifa Laugar í vetrarham. Hópurinn var heppinn með veður og fátt betra til endurnæra lúinn líkama en fara í hina yndislegu heitu náttúrulaug Landmannalauga. Þátttakendur voru alsælir með ferðina og töluðu einmitt um þessa einstaka upplifun og dýrmætu reynslu sem þessi ferð gaf þeim.
Umsjónarmenn FÍ Landvætta eru hjónin Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.