FÍ leitar að nafni

Vinsæl trússferð ofan Bláskógabyggðar

Falleg fjöll og ósnortið land

Gönguleiðin ofan Bláskógabyggðar frá Bláfellshálsi, að Skjaldbreið og að Laugarvatni nýtur sívaxandi vinsælda göngufólks. Setja þurfti aukaferð nú í sumar og er hún að fyllast. Leiðin opnaðist fyrst fyrir tveimur árum þegar brú yfir ána Farið við Hagavatn var smíðuð fyrir tveimur árum. Fyrri brýr á þeim slóðum hafði jafnan tekið af.

Þetta er tiltölulega létt fjögurra daga trússferð, þar sem gengið er um óbyggðir og jafnframt reynt Olafur-orn-150að hafa hana dekurferð og notið er eins mikilla þæginda og hægt er í fjallaferð. „Þetta er skemmtileg leið um ósnortið land sem er þó næri byggð. Gengið er skammt frá jaðri Langjökuls, um hraun, sanda og lyngmóa og loks um örmjótt fjallaskarð niður að Laugarvatni. Eldvirkni hefur valið þarna saman margar áhugaverðar tegundir fjalla, dyngjur, stapa, móbergshryggi og fleira ásamt merkilegri landmótun jökulsins með framhlaupi, hopi, lónum og hamfarahlaupum. Þessar slóðir bjóða upp á flest sem göngufólk sem ann landinu leitar eftir,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands.

Jarlhettur, Hlöðufell og Skjaldbreið

Ólafur fer fyrir Ferðafélagshópi sem ætlar að ganga þessa slóðir dagana 17. til 20 júlí í sumar. Það er aukaferð, en uppselt er í ferð sem er á áætlun nokkrum dögum síðar. Lagt verður upp frá Skálpanesi innan við Bláfellsháls fyrstu nóttina gist í skála FÍ eða í tjöldum við skálann við Hagavatn, en hinar á Hlöðuvöllum og við Kerlingu sunnan við Skjaldbreið. Dagleiðir eru 13 til 20 km. og gist í skálum og tjöldum.

„Þessi leið er afar þægileg og víða hallar undan fæti, enda þótt stundum sé nokkuð grýtt. Annað sem gerir þessa leið mjög skemmtilega eru fjöllin.  Þau eru bæði fjölbreytileg og falleg enda í hópi hæstu fjalla á Suðvesturlandi. Má þar nefna Jarlhettur, Hlöðufell, Högnhöfða og Skjaldbreið. Öll eru þessi fjöll kleif fyrir velfrískt fólk. Útsýnið af Skjaldbreið, sem fannar skautar faldi háum, hvort sem horft er til suðurs, inn á hálendið eða litið til fjalla niður í Borgarfirði,“ segir Ólafur Örn.

Fyrstu þrjá daga ferðarinnar er gengið sunnan við Langjökli, það er frá Skálpanesi við Bláfellsháls, að Skjaldbreið. Þaðan er fjórða daginn er farið suður í Langadal og eftir honum milli Skriðunnar og Skefilsfjalls gegnum þröngt Klukkuskarðið vestan Klukkutinda. Þar eru skörp skil blásinna óbyggða og gróðursællar sveitar. Um leið opnast útsýni yfir Suðurland, uppsveitirnar, austur til Heklu, Eyjafjallajökuls og Vestmannaeyja. Þá er gengið niður í birkiskóginn í Laugardal að Hjálmstöðum og Laugarvatni þar sem ferðin endar með notalegri stund í heitum pottum sundlaugarinnar, grillveislu og heimsókn á æskuheimili Ólafs Arnar.

Leitað að nafni

Ljóst er að í sumar munu margir ganga þessa frábæru leið ofan Biskupstunga- og Laugardals. Það verða bæði hópar á vegum FÍ og eins fólk sem ferðast á eigin vegum.

„Nú er orðið beinlínis aðkallandi að finna leiðinni formlegt nafn. Við munum að Laugavegsnafnið kom á sínum tíma nánast sem gamanmál, en náði síðar flugi og festist við leiðina. Ég leita því að góðu nafni og skora á alla með hugmyndir um að koma þeim á framfæri,“ segir Ólafur Örn.

Tillögur að nöfnum skal skilað inn til Ferðafélags Íslands, fi@fi.is, fyrir 1. september nk.