Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, leiðir göngu með Ferðafélagi unga fólksins, sem er fyrir fólk á aldrinum 18-25 ára, þann 2. febrúar næstkomandi á Helgafell við Hafnarfjörð.
Háskólinn hefur starfað með Ferðafélagi Íslands frá árinu 2011 að fræðandi gönguferðum í borgarlandinu undir heitinu Með fróðleik í fararnesti og hafa þúsundir nýtt sér þær göngur. Í þeim hefur áherslan verið á skemmtilegar göngur fyrir börn og unglinga í gegnum Ferðafélag barnanna en í Ferðafélagi unga fólksins verður áherslan á aldurshópinn 18 til 25 ára. Þetta er því kjörin létt og ljómandi ganga fyrir alla nemendur Háskólans sem hafa áhuga á hollri hreyfingu, útivist og að fá fróðleik til viðbótar.
„Markmiðið með þessum nýlega anga Ferðafélagsins er að hvetja ungt fólk til að ferðast um landið sitt, kynnast Íslandi og vera úti í náttúrunni í góðum félagsskap og fá jafnvel fróðleik í kaupbæti,“ segir fjallagarpurinn John Snorri Sigurjónsson sem leiðir allar göngur unga fólksins. Það er ekki amalegt að fá leiðsögn frá John Snorra, manni sem hefur m.a. gengið á tindana Lhotse, K2 og Broad Peak sem allir eru firnaháir og eftirsóttir á meðal fremsta fjallafólks veraldar.
Skemmtilegt að ganga á Helgafell
Það er býsna skemmtilegt að ganga á Helgafell og ekki verður það verra að fá fróðleikinn beint í æð frá einum virtasta vísindamanni heims á sviði jarðvísinda og eldsumbrota. Nákvæmnismælingar á hreyfingum jarðskorpunnar er meginþema í rannsóknum Freysteins. Með því að mæla hreyfingar með mikilli nákvæmni má til dæmis sjá hvernig flekarek teygir á landinu okkar þannig að Austurland færist frá Vesturlandi á svipuðum hraða og hárið vex, hvernig mest allt landið okkar rís vegna minnkandi jökla, mest inn til landsins yfir 30 millimetra á ári, og hvernig eldfjöll búa sig undir eldgos.
Algengur fyrirboði eldgosa er söfnun bergkviku í rótum eldstöðva áður en hún berst til yfirborðs. Þá þenjast eldfjöll út líkt og blaðra sem stækkar uns brotmörkum er náð. Með því að mæla mynstur og stærð hreyfinga á yfirborði má setja fram líkön um kvikutilfærslu neðanjarðar. Þessi viðfangsefni hafa verið stór þáttur í rannsóknum Freysteins.
Í ferðinni með unga fólkinu mun Freysteinn rekja tilurð Helgafells sem er rösklega 300 metra hár móbergsstapi sem er dæmigerður fyrir fjöll sem myndast hafa í gosi undir jökli. Freysteinn mun einnig benda á gosstöðvar á Reykjanesi en af Helgafelli er ágætt útsýni þótt fjallið sé ekki hátt. Gangan á Helgafell tekur að jafnaði eina og hálfa klukkustund en það verður numið staðar nokkrum sinnum á leiðinni til að njóta leiðsagnar og fræðslu.
„Mitt markmið er að allir sem vilja eigi að komast með og taki með sér góða skapið. Það er mikilvægt að njóta og fræðast og vera klæddur eftir veðri. Svo þarf maður auðvitað að taka með sér nesti og það er allt í lagi að gera það líka í styttri ferðunum,“ segir John Snorri Sigurjónsson, sem leiðir allar ferðir Ferðafélags unga fólksins fyrir hönd Ferðafélagsins.
John Snorri Sigurjónsson
Freysteinn Sigmundsson stýrði fyrir fáeinum misserum risarannsóknarverkefninu FUTURVOLC sem stutt var af Evrópusambandinu og hafði það að markmiði að koma á fót samhæfðu vöktunarkerfi á eldfjöllum, að þróa nýjar aðferðir til að meta hættu á eldgosum, að efla skilning á myndun og hreyfingu kviku í jarðskorpunni, að bæta gæði mælinga á stærð og afli eldgosa og að bæta upplýsingagjöf til almannavarna og yfirvalda, ekki síst með tilliti til flugsamgangna.
Mælitæki sem sett hafa verið upp hér á landi fyrir tilstuðlan þessa samevrópska verkefnis á síðustu árum hafa leitt til þess að nýlegar náttúruhamfarir eru svo vel skráðar að þess eru fá ef nokkur dæmi annars staðar í heiminum. Freysteinn mun án efa gauka fróðleik að göngufólki um mikilvægi slíkra mælinga til að tryggja öryggi fólks.
Freysteinn er fæddur árið 1966 og er sjálfur útivistarmaður. Hann lærði jarðeðlisfræði og lauk meistaraprófi frá Háskóla Íslands árið 1990 og doktorsprófi frá Háskólanum í Colorado í Bandaríkjunum árið 1992. Að loknu námi hóf hann störf á Norrænu eldfjallastöðinni og var meðal annars forstöðumaður hennar þar til hún sameinaðist Háskóla Íslands árið 2004 og Jarðvísindastofnun Háskólans var stofnuð. Freysteinn starfar þar innan Norræna eldfjallasetursins.
Áherslan á að læra og upplifa
John Snorri leggur áherslu á að göngufólkið læri á umhverfi sitt, kynnist náttúrunni og bæti sig, hressi og kæti. Reynsla hans er gríðarleg enda hefur hann gengið víða, verið í skátum og björgunarsveitum og oft komist í hann krappann. Þannig verður það samt ekki í þessum ferðum enda áherslan á öryggi, þægilegar göngur þótt stundum geti aðeins reynt á.
„Mitt markmið er að allir sem vilja eigi að komast með og taki með sér góða skapið. Það er mikilvægt að njóta og fræðast og vera klæddur eftir veðri. Svo þarf maður auðvitað að taka með sér nesti og það er allt í lagi að gera það líka í styttri ferðunum,“ segir John Snorri.
Þess má geta að ókeypis verður í gönguferðina með Freysteini og því sjálfsagt að nýta sér það en Háskóli Íslands mun veita fróðleik í allnokkrum göngum Ferðafélags unga fólksins í vetur og fram á vorið.
Brottför verður klukkan 10 frá Kaldárseli fyrir ofan Hafnarfjörð laugardaginn 2. febrúar eins og áður sagði og er gengin hefðbundin leið úr Kaldárbotnum og upp á Helgafell.
Í ferðinni með unga fólkinu mun Freysteinn rekja tilurð Helgafells sem er rösklega 300 metra hár móbergsstapi sem er dæmigerður fyrir fjöll sem myndast hafa í gosi undir jökli. Freysteinn mun einnig benda á gosstöðvar á Reykjanesi en af Helgafelli er ágætt útsýni þótt fjallið sé ekki hátt. MYND/Jón Örn Guðbjartssson