FÍ og IKEA í samstarf

Ferðafélag Íslands og IKEA leiða saman hesta sína

Ferðafélag Íslands og IKEA hafa skrifað undir samstarfssamning og vilja með samstarfinu leggja sitt af mörkum til að stuðla að bættri lýðheilsu landans með því að vekja sérstaka athygli á mikilvægi þess að fólk tileinki sér heilbrigðan og umhverfisvænan lífsstíl.

Ferðafélag Íslands hefur nú í 90 ár lagt áherslu á að efla heilsusamlegan lífsstíl fólks á öllum aldri með virðingu fyrir náttúrunni að leiðarljósi. IKEA er jafnframt þekkt fyrir að sýna samfélagslega ábyrgð í verki þar sem umhverfisvitund, sjálfbærni og heilsusamlegir lífshættir hafa verið ofarlega á baugi.

IKEA sér fyrir sér að þessir þættir eflist enn frekar með samstarfinu og að það veiti ekki síst kjörið tækifæri til að kynna íslenska náttúru betur fyrir erlendu starfsfólki. Ferðafélag Íslands mun meðal annars nýta umhverfisvænar og hagkvæmar lausnir IKEA varðandi húsbúnað og skipulag í skálum félagsins á næstu árum.

Ferðafélag Íslands og IKEA hvetja landsmenn eindregið til að huga að eigin heilsu og vellíðan og huga um leið að umhverfi okkar og samfélagi til að tryggja lífsgæði komandi kynslóða.